Dagsetning                       Tilvísun
13.12.2005                              10/05

 

Skattlagning við sölu bókagjafar.

Ríkisskattstjóri móttók fyrirspurn yðar þann 6. október 2005. Í fyrirspurninni kemur fram að X á Íslandi hafi fengið vilyrði félagsmanns fyrir gjöf á 660 bókum. Um sé að ræða hluta upplags af ævisögu félagsmannsins en félagsmaðurinn hafi þegar selt þó nokkrar bækur og sé því óljóst hve vel bókin muni seljast. Kemur fram að fyrirhugað sé að koma bókunum í sölu hjá bókaverslunum. Þá kemur fram að starfsemi félagsins sé rekin af sjálfboðaliðum og séu einu tekjur félagsins tekjur af félagsgjöldum. Spurt er um skattalega meðferð tekna sem kynnu að myndast við sölu bókarinnar.

I. Virðisaukaskattur.
Sala á bókum fellur undir skattskyldusvið virðisaukaskatts, sbr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Nái sala félagsins á bókum hins vegar ekki 220.000 kr. á ári telst félagið þó undanþegið skattskyldu, sbr. 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988.

Meginreglan er sú að við sérhverja sölu eða afhendingu á vöru skal seljandi gefa út reikning í því formi sem áskilið er í lögum, sbr. ákvæði 20. gr. laga nr. 50/1988. Þegar seldum verðmætum er svo skilað til seljanda skal ætíð gefa út innleggsreikning (kreditreikning) fyrir hinum mótteknum verðmætum með tilvísun til fyrri reiknings eins og fram kemur í 3. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988. Þar sem ekki liggur fyrir í hve miklu upplagi umræddar bækur félagsins muni seljast er rétt að vekja athygli á því að sérstök ákvæði gilda um vörur sem afhentar eru til umsýslu- eða umboðssölu en samkvæmt 4. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, má annað hvort telja slíkar vörur til skattskyldrar veltu á því uppgjörstímabili þegar afhending fer fram eða til veltu þess tímabils þegar gert er upp við umsýslu- eða umboðsmanns. Sé síðarnefnda aðferðin valin má ekki gefa út reikning skv. 20. gr. fyrr en uppgjörið fer fram. Þessi leið kynni að vera heppilegri fyrir félagið, þ.e. að afhenda bókaverslunum bækurnar til umsýslu- eða umboðssölu, í stað þess að gefa strax út sölureikning, ef ekki er talið augljóst að veltan muni ná 220.000 kr. á ári. Um leið og ljóst er að veltan muni ná þeirri fjárhæð þarf félagið hins vegar að tilkynna um starfsemina inn á grunnskrá virðisaukaskatts hjá skattstjóranum í Reykjavík.

II. Tekjuskattur.
X á Íslandi er rekið sem félagasamtök og kemur fram í fyrirspurn þeirri sem hér er til umfjöllunar að starfsemi félagsins sé rekin af sjálfboðaliðum og séu einu tekjur félagsins tekjur af félagsgjöldum.

Skattskylda lögaðila byggir á 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Þrátt fyrir að lögaðilar séu almennt skattskyldir eru undantekningar frá því svo sem nánar er tilgreint í 4. gr. laga nr. 90/2003. Þannig eru félög, sjóðir og stofnanir, sem ekki reka atvinnu undanþegnir skattskyldu. Sala á 660 bókum yrði væntanlega talið til atvinnurekstrar og kynni salan því að verða til þess að félagið yrði talið skattskylt á grundvelli 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Þó ber að hafa í huga að þeir lögaðilar sem um ræðir í 2. gr. greiða hvorki tekjuskatt og eignarskatt, ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einast markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Séu slík ákvæði í samþykktum X kynni undanþága frá skattskyldu að byggjast á því.

 

Ríkisskattstjóri