Dagsetning Tilvísun
8. maí 1990 71/90
Virðisaukaskattur – myndskreytingar o.fl.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 29. október 1989, þar sem óskað er upplýsinga um skattskyldu yðar samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Í bréfinu segir:
„Ég starfa sjálfstætt sem myndlistarmaður en þó ekki í hefðbundnum skilningi þess starfsheitis því að sala á verkum mínum er með eftirfarandi hætti:
- Ég sel myndir til auglýsingastofa til notkunar í auglýsingum, í bæklingum, á bókakápum o.fl.
- Ég sel myndir til Námsgagnastofnunar til notkunar í kennslubókum.
- Ég er að vinna að barnabók sem er án orða, einungis myndskreytt. Hún verður útgefin af bókaforlagi.
- Auk þessa starfa ég á hefðbundinn hátt sem myndlistarmaður og kann að selja myndir án tillits til notkunar kaupenda á þeim.“
Til svars erindinu verður fyrst fjallað almennt um skattskyldu myndlistarmanna, teiknara o.fl. Síðan verður spurningu yðar svarað beint.
I.
- Sala á listaverkum.
Listamenn eru undanþegnir skattskyldu að því er varðar sölu þeirra á eigin verkum sem falla undir vöruliði 970i til 9703 í tollskrá. Eftirfarandi listaverk falla hér undir:
- Málverk, teikningar og pastelmyndir gerðar í höndum að öllu leyti, þó ekki;
(a) uppdrættir og teikningar til notkunar í húsagerð ,verkfræði, iðnaði, viðskiptum, landslagsfræði eða þess háttar handgerð frumverk,
(b) handskrifaður texti,
(c) ljósmyndir á ljósnæmum pappír og
(d) handmálaðir eða handskreyttir framleiddir hlutir.
- Klippimyndir og áþekkt veggskreytispjöld.
- Frumverk af stungum, þrykki og steinprenti, þ.e. myndir sem þrykktar eru beint í svörtu og hvítu eða í lit með einni eða fleiri plötum sem listamaðurinn hefur gert að öllu leyti i höndunum, án tillits til þeirra aðferða eða efnis sem hann notar, þó ekki með neins konar vélrænum eða ljósvélrænum aðferðum.
- Frumverk af höggmyndum og myndastyttum, úr hvers konar efni. Til þessa flokks teljast ekki fjöldaframleiddar endurgerðir af listaverkum eða venjulegar handiðnaðarvörur sem hafa einkenni verslunarvöru.
Rammar um málverk, teikningar, pastelmyndir, klippimyndir eða áþekk veggskreytispjöld, stungur, þrykk eða steinprent skoðast sem hluti af þessum vörum, enda séu þeir að gerð og verðmæti í eðlilegu samræmi við þær.
Að öðru leyti en að framan greinir skiptir ekki máli til hverra nota listaverk er selt. Þannig tekur undanþága 2. tölul. 4. gr. til sölu listamanna á myndskreytingum og teikningum til notkunar í bók, þ.m.t. á bókarkápu, svo og til notkunar sem ritstjórnarefni í dagblaði eða tímariti. Skilyrði er að um sé að ræða eigin verk seljanda, að öllu leyti gert í höndum, og að ekki sé um að ræða auglýsingateikningu.
- Framsal á rétti til birtingar listaverks.
Ákvæði 2. tölul. 4. gr. tekur ekki til þess tilviks þegar birtingarréttur er eingöngu framseldur, þ.e. þegar ekki er um að ræða eiginlega sölu á listaverki.
Hins vegar er framsal listamanna á birtingarrétti þeirra listaverka sem að ofan greinir undanþegið virðisaukaskatti skv. 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga: Skilyrði er að um sé að ræða eigin verk seljanda, að öllu leyti gert í höndum, og að ekki sé um að ræða auglýsingateikningu.
- Auglýsingateikningar o.fl.
Sala á auglýsingateikningum, uppdráttum og teikningum að nytjahlutum, svo og öðrum uppdráttum og teikningum til notkunar í húsagerð, verkfræði, iðnaði, viðskiptum og landslagsfræði er skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.
II.
Samkvæmt framansögðu er starfsemi yðar undanþegin virðisaukaskatti að því undanskildu að sala á myndum og teikningum til auglýsingastofa til notkunar í auglýsingum, auglýsinga- og kynningarbæklingum o.þ.h. er skattyskyld
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.