Dagsetning                       Tilvísun
8. maí 1990                              72/90

 

Frádráttur virðisaukaskatts í blandaðri starfsemi.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 28. mars sl., þar sem bent er á að ýmsir sendibifreiðastjórar hafa á sumrin unnið við akstur nemenda vinnuskóla og vinnuflokka m.a. við garðyrkjustörf og malbikun. Af þessari ástæðu sé þeim nauðsynlegt að skrá bifreiðar sínar sem fólksflutningabifreiðar. Kemur sú skoðun fram í bréfi yðar að þær reglur sem felist í nýlegri breytingu á reglugerð nr. 530/1989, um frádrátt virðisaukaskatts, valdi því að þessir menn séu nánast útilokaðir frá umræddum störfum.

Af þessu tilefni vill ríkisskattstjóri taka fram að reglur um frádrátt virðisaukaskatts hjá aðila sem bæði hefur með höndum fólksflutninga og vöruflutninga eru mismunandi eftir því hvort hann notar bifreið fyrir fleiri en átta farþega eða minni bifreið. Í fyrra tilvikinu er heimilt að telja virðisaukaskatt af aðföngum (þ.m.t. öflun, rekstur og leigu bifreiðar) að hluta til innskatts, sbr. nánar reglug. nr. 530/1989 og leiðbeiningarit ríkisskattstjóra á bls. 33 og áfr. Hins vegar er óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum er varða öflun, rekstur og leigu fólksbifreiða fyrir færri en níu manns, einnig þótt hún væri að fullu notuð við virðisaukaskattsskylda starfsemi.

Ótvíræðar skilgreiningar þess hvað teljist fólksbifreið og hvað vöruflutninga- eða sendiferðabifreið er að finna í reglug. nr. 530/1989, með áorðnum breytingum, og er ekki á valdi ríkisskattstjóra að veita undanþágur frá þeim reglum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.