Dagsetning                       Tilvísun
15. maí 1990                              73/90

 

Um athugun virðisaukaskattsskýrslna.

Samkvæmt 25. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal skattstjóri rannsaka virðisaukaskattsskýrslur og leiðrétta þær ef þær eða einstakir liðir þeirra eru í ósamræmi við virðisaukaskattslög eða fyrirmæli sem sett verða samkvæmt þeim. Þá skal skattstjóri áætla skatt af viðskiptum þeirra aðila sem ekki senda skýrslur innan tilskilins tíma, senda enga skýrslu eða ef skýrslu eða fylgigögnum er ábótavant. Skattstjóri skal tilkynna innheimtumanni og skattgreiðanda um áætlanir og leiðréttingar sem gerðar hafa verið.

Um málsmeðferð í virðisaukaskattsmálum fer samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að því leyti sem ekki er sérstaklega kveðið á um hana í lögum nr. 50/1988, sbr. 3. mgr. 49. gr. þeirra laga. Verður þannig að gæta ákvæða X. kafla laga nr. 75/1981 eftir því sem við á.

Víð almenna athugun virðisaukaskattsskýrslna geta komið upp tvenns konar tilefni til leiðréttingar eða breytingar á skýrslu. Eru þá ekki höfð í huga atriði sem kunna að þykja óljós eða tortryggileg eða ef skýrsla er ófullnægjandi undirrituð o.þ.h.

Málsmeðferð er með mismunandi hætti eftir þvi hvers eðlis tilefni til leiðréttingar er:

  1. Leiðrétting fjárhæðar í reit E.

Í reit E á virðisaukaskattsskýrslu færist mismunur útskatts í reit C og innskatts í reit D. Færsla á útskatti og innskatti, þ.e. fjárhæða í reitum C og D, skal byggjast á niðurstöðutölum ákveðinna bókhaldsreikninga, sbr. 4. mgr. 18. gr. laga nr. 50/1988. Ef fjárhæð í reit E sýnir ekki réttan mismun reita C og D má telja að um sé að ræða reikningsskekkju sem skattstjóra er heimilt að leiðrétta án sérstakrar fyrirspurnar eða aðvörunar til gjaldanda. Skal þá eftir atvikum hækka eða lækka fjárhæð í reit E og tilkynna gjaldanda og innheimtumanni um breytinguna (ebl. RSK 10.20). Þó hefur fjármálaráðuneytið ákveðið að fella skuli niður mismun álagningar og greiðslu sem nemur l00 kr. eða lægri fjárhæð.

  1. Útskattur stemmir ekki við skattskylda veltu.

Í reit A færist skattskyld velta án virðisaukaskatts. Á skýrslu stendur útskattur (reitur C) ekki í reikningslegum tengslum við skattskylda veltu, heldur eiga báðar fjárhæðirnar að byggjast á upplýsingum í bókhaldi skattaðila. Komi í ljós að útskattur stemmir ekki við uppgefna skattskylda veltu er rétt að senda skattaðila áskorun eða fyrirspurn, sbr. l. mgr. 96. gr. tekjuskattslaga, sbr. 3. mgr. 49. gr. virðisaukaskattslaga, og óska skýringa á þessu atriði. Jafnframt skal vekja athygli skattaðila á að komi ekki fram fullnægjandi skýringar kunni skattstjóri að gera breytingar á skýrslu sem leiði til hærri skattskila.

Smávægilegan mismun af því tagi sem hér um ræðir má skýra með því að afreikningshlutfall í virðisaukaskatti (19,68%) er aðeins með nákvæmni upp á tvo aukastafi (24,5 í 100/124,5 er ekki nákvæmlega 19,68). Því þykir ástæðulaust að leiðrétta mismun sem nemur allt að 25 kr. af hverri l.000.000 kr. í skattskylda veltu – hvort sem um jákvæðan eða neikvæðan mismun er að ræða. Í þeim tilvikum skal skrá skýrslu miðað við þær upplýsingar sem koma fram á henni sjálfri.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.