Dagsetning Tilvísun
18. maí 1990 74/90
Útfylling virðisaukaskattsskýrslu.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 5. apríl sl., þar sem spurt er hvort fylla eigi í reit C (útskattur) á virðisaukaskattsskýrslu með 24,5% af fjárhæð í reit A (skattskyld velta án vsk.) eða með þeirri upphæð sem er samlagning virðisaukaskatts á sölureikningum.
Til svars erindinu skal tekið fram að báðar umræddar fjárhæðir – skattskyld velta í reit A og útskattur í reit C – skulu byggja á færslum í bókhaldi, sbr. 2. gr. reglug. nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Færslu nauðsynlegs bókhalds vegna uppgjörs virðisaukaskatts skal vera lokið áður en virðisaukaskattsskýrsla tímabilsins er send, sbr. 31. gr. reglugerðarinnar. Í lok uppgjörstímabils skal stemma af útskattsreikning. Niðurstöðutala hans er sú upphæð sem á að færa í reitinn „útskattur“ á virðisaukaskattsskýrslu.
Skattyfirvöld munu ekki gera athugasemdir við minniháttar ósamræmi þessara tveggja fjárhæða sem t.d. á rætur að rekja til þess að menn hækki eða lækki skattfjárhæð á sölureikningum í næstu heila krónu eftir almennum reglum; 50 aurar og hærra hækkað upp en lægri fjárhæð lækkuð niður.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.