Dagsetning                       Tilvísun
18. maí 1990                              76/90

 

Virðisaukaskattur – bókasöfn o.fl.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 23. janúar 1990, þar sem óskað er upplýsinga um það hvort ýmis aðkeypt vinna við bókasafn og skjalasafn félagsins sé skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.

Til svars erindinu skal tekið fram að starfsemi bókasafna er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Í því felst að safnið innheimtir ekki virðisaukaskatt af greiðslum sem það kann að áskilja sér fyrir útlán bóka og aðra bókasafnsþjónustu. Hins vegar nær undanþágan ekki til kaupa á vörum og skattskyldri þjónustu fyrir safnið.

Að áliti ríkisskattstjóra ber sjálfstætt starfandi aðila (verktaka) sem tekur að sér að flokka, merkja og skrásetja bækur safnsins að innheimta og skila virðisaukaskatti af endurgjaldi fyrir vinnu sína. Sama gildir um þann sem tekur að sér í atvinnuskyni að flokka og skrásetja skjalasafn félagsins. Í þessu sambandi skal þó tekið fram að starfsemi sagnfræðinga við sagnfræðilegar rannsóknir, þ.m.t. könnun, flokkun og skráning heimilda, og frumsamning texta á grundvelli þeirra er að mati ríkisskattstjóra undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 4. og 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.

Aðkeypt vinna verktaka við bókband er skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Að áliti ríkisskattstjóra ber einnig að greiða virðisaukaskatt af bókbandsvinnu sem unnin af starfsmönnun safnsins – þ.e. ef bókbandsstofa rekin innan safnsins – og vísast í því sambandi til 4. tölul. l. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 562/1989.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra .

Ólafur Ólafsson.