Dagsetning                       Tilvísun
18. maí 1990                              77/90

 

Virðisaukaskattur af vöruflutningum.

Ríkisskattstjóri hefur 24. október 1989 móttekið bréf yðar þar sem leitað er álits embættisins á atriðum er lúta að virðisaukaskatti af vöruflutningum milli landa, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

I.

Undanþáguákvæði 2. tölul. l. gr. 12. gr. tekur til vöruflutninga milli landa, svo og vöruflutninga innan lands þegar flutt er beint til eða frá landinu.

Undanþágan er sett vegna þess hve erfitt kann að vera að skipta flutningskostnaði, t.d. vegna flutninga með skipi sem kemur við á mörgum höfnum innan lands áður en það kemur til endanlegs áfangastaðar. Þá er reglunni og ætlað að girða fyrir möguleika á tvísköttun þar sem frádráttur vegna virðisaukaskatts kemur ekki til greina þegar flutningskostnaður er greiddur af erlendum aðila.

Skilyrði þess að ákvæðið eigi við vöruflutninga innan lands er að um sé að ræða einn flutningssamning frá tilteknum stað innan lands til tiltekins erlends áfangastaðar eða öfugt. Sé þetta skilyrði uppfyllt getur farmflytjandi sem hefur með höndum millilandaflutninga talið allt farmgjaldið til undanþeginnar veltu sinnar þótt hluti þess varði flutning innan lands.

Áfangastaður innan lands er sá staður sem tilgreindur er á farmskírteini. Farmflytjandi skal ávallt geta lagt fram nauðsynleg skjöl til sönnunar því að undanþágan taki til þjónustu hans. Þau skjöl geta verið afrit af farmskírteini eða farmreikningi þar sem áfangastaður kemur fram.

Kaupi aðalfarmflytjandi þjónustu undirverktaka við innanlandsflutninginn ber þeim síðarnefnda að leggja virðisaukaskatt á flutningsþjónustu sína. Sá skattur kemur sem innskattur hjá aðalfarmflytjanda.

II.

Ofangreindar reglur taka til flutnings hvers konar vöru, þ.m.t. vinnuvéla og gáma. Þannig er skipafélagi, sem flytur vinnuvél samkvæmt flutningssamningi frá erlendri höfn til innlends áfangastaðar, heimild að telja flutningsgjaldið að öllu leyti undanþegið skattskyldri veltu. Skiptir ekki máli þótt taka þurfi vélina af flutningavagni á leiðinni t.d. til þess að skipta um rúðu í vélinni.

Á sama hátt lýkur undanþegnum flutningi gáms þegar á áfangastað samkvæmt flutningssamningi við þann aðila sem annast flutning hans frá útlöndum.

Öðrum flutningsaðilum en þeim sem annast flutning vörunnar frá útlöndum er ætíð skylt að innheimta virðisaukaskatt af flutningsþjónustu sem veitt innanlands.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.