Dagsetning Tilvísun
23. maí 1990 79/90
Virðisaukaskattur
Vísað er til bréfs yðar, dags. 29. janúar 1990, þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort starfsemi Byggingarþjónustunnar sé skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.
Í erindi stofnunarinnar kemur fram að starfsemi hennar felist í því að veita almenningi upplýsingar og ráðgjöf um byggingar-, húsnæðis- og skipulagsmál. Bæði einkaaðilar og opinberir aðilar leigja sýningarbása í húsnæði Byggingarþjónustunnar, en auk hefur hún tekjur af námskeiðum og ráðstefnum um margvísleg efni sem snerta húsnæðis- og byggingarmál. Ýmiskonar þjónusta er veitt þeim sem standa að Byggingarþjónustunni og eru þá reikningar miðaðir við sannanlegan kostnað hverju sinni. Stofnunin fær árgjöld frá félagasamtökum, stofnunum, sveitarfélögum og ráðuneytum sem eiga aðild að henni og nýtur auk þess styrkja.
Til svars erindinu skal tekið fram að útleiga á sýningarrými og annarri aðstöðu til kynningar á framleiðslu- eða söluvörum aðila eða þjónustustarfsemi hans er að áliti ríkisskattstjóra skattskyld starfsemi (auglýsingaþjónusta), sbr. 2. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Þannig skal stofnunin innheimta og skila virðisaukaskatti af heildarendurgjaldi sem einstakir sýnendur greiða fyrir þátttöku, svo og vegna kaupa á annarri skattskyldri þjónustu og vörum. Sala á efni og vinnu við uppsetningu sýningarbása o.fl. er skattskyld. Aðgangseyrir sem almenningur kann að vera krafinn um er virðisaukaskattsskyldur.
Fagleg menntun, þ.m.t. endurmenntun, er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Þannig eru námskeið og ráðstefnur sem geta talist liður í fagmenntun þátttakenda undanþegin skattinum. Við mat þess hvenær um fagmenntun er að ræða leggur ríkisskattstjóri áherslu á að kennslan miði að því að viðhalda eða auka þekkingu eingöngu vegna atvinnu þátttakenda. Ráðgjafarþjónusta til einstakra fyrirtækja er hins vegar skattskyld – þótt hún sé í formi námskeiðs.
Um frádrátt innskatts þegar aðili hefur bæði með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi og starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskatti vísast til reglugerðar nr. 530/1989.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.