Dagsetning                       Tilvísun
28. maí 1990                              81/90

 

Virðisaukaskattur af matreiðslunámskeiðum.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 26. janúar 1990, þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af námskeiðum í matreiðslu sem hússtjórnarkennari tekur að sér sem verktaki. Í bréfinu er námskeiðum þessum lýst svo að í fyrsta lagi sé um að ræða kynningu á matreiðslu í örbylgjuofnum, ýmist á vegum söluaðila eða kennara, og í öðru lagi kennslu í gerbakstri á vegum kennara.

Til svars erindinu skal tekið fram að rekstur skóla og menntastofnana er undanþeginn virðisaukaskatti, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga kemur fram að með orðalaginu „rekstur skóla og menntastofnana“ sé átt við alla venjulega skóla- og háskólakennslu, faglega menntun, endurmenntun, og aðra kennslu- og menntastarfsemi. Jafnframt er tekið fram að við mat á því hvort nám teljist skattfrjálst sé eðlilegt að hafa hliðsjón af því hvort boðið er upp á það í hinu almenna skólakerfi eða ekki. Hafi námsgreinin unnið sér fastan sess í hinu almenna skólakerfi ber að líta svo á að skóla- eða námskeiðsgjöld séu skattfrjáls.

Með vísan til framanritaðs og þess að matreiðsla er kennd í grunnskólum landsins er það álit ríkisskattstjóra að námskeið í matreiðslu séu undanþegin virðisaukaskatti. Undanþágan tekur ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi.

Almennt skiptir ekki máli hver stendur fyrir námskeiði. Í þessu sambandi skal þó vakin athygli á því að fræðsla og kynning sem veitt er í tengslum við söluvöru getur í ýmsum tilvikum talist vera auglýsingar eða ráðgjöf – og þannig virðisaukaskattsskyld starfsemi – til dæmis ef seljandi tækis gerði það að skilyrði fyrir sölu að kaupandi sækti námskeið í notkun tækisins.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.