Dagsetning Tilvísun
28. maí 1990 82/90
Virðisaukaskattur – flutningagámar.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 25. janúar 1990, þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af sölu eftirtalinnar þjónustu:
1) Viðgerðir á flutningagámum
a) í eigu innlendra skipafélaga,
b) í eigu erlendra aðila,
c) í eigu innlendra leigufélaga.
2) Útleiga á flutningagámum til innlendra skipafélaga.
Þá er spurt hvort greiða beri virðisaukaskatt af innflutningi á gámum tengdum ofangreindri starfsemi.
Til svars erindinu skal tekið fram að tæki og annar búnaður sem afhentur er til nota um borð í millilandaförum er undanþegin skattskyldri veltu, sbr. 5. tölul. 1. mgr.12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Sama gildir um þjónustu sem veitt er slíkum förum. Þýðing undanþágunnar er sú að seljandi leggur ekki útskatt á sölu sína (núll-skattur) en hefur innskattsfrádrátt samkvæmt almennum reglum.
Að áliti ríkisskattstjóra er sala og útleiga á gámum og tengdum búnaði, svo sem gámagrindum og brautum, til skipafélags sem stundar millilandaflutninga undanþegin skattskyldri veltu á grundvelli fyrrgreinds lagaákvæðis. Þá er viðgerðar- og viðhaldsþjónusta við gáma og tengdan búnað í eigu skipafélags sem stundar millilandaflutninga undanþegin skattskyldri veltu með sama hætti.
Sala eða leiga gáma, svo og viðgerðar- og viðhaldsþjónusta við gáma o.fl., til aðila sem ekki hafa millilandaflutninga með höndum telst hins vegar til skattskyldrar veltu.
Spurningum sem lúta að innflutningi vöru er rétt að beina að tollyfirvöldum.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.