Dagsetning Tilvísun
28. maí 1990 83/90
Um 3. mgr 2. gr. reglugerðar nr. 641/1989.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 6. febrúar 1990, þar sem spurt er hvað er átt við með orðinu „söluverð“ í 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 641/1989 um endurgreiðslu virðisaukaskatts til byggjenda íbúðarhúsnæðis.
Samkvæmt reglugerðinni ber að endurgreiða hluta virðisaukaskatts í söluverði verksmiðjuframleiddra húsa. Hér er átt við heildarsöluverð húss eins og það er afhent til kaupanda á grunni sem hann leggur til – eftir atvikum sem fullgert hús, tilbúið undir málningu og innréttingu eða fokhelt – að viðbættum virðisaukaskatti, en áður en tekið er tillit til endurgreiðslunnar.
Eðlilegt er að áliti ríkisskattstjóra að láta fjárhæð væntanlegrar endurgreiðslu koma fram á sölureikningi seljanda verksmiðjuframleidds húss. Þannig kæmi fram á reikningnum hvert söluverð hússins er án virðisaukaskatts, fjárhæð virðisaukaskatts, fjárhæð endurgreiðslu og heildarfjárhæð.
Dæmi (fullgert hús selt):
Söluverð án virðisaukaskatts 1.000.000 kr.
Virðisaukaskattur 245.000 kr.
Söluverð með virðisaukaskatti 1.245.000 kr.
Endurgreiðsla 7,75% 96.488 kr.
Söluverð með endurgreiðslu 1.148.512 kr.
Hérna þarf kaupandi hússins að greiða 1.148.512 kr. fyrir húsið og verksmiðjan fær endurgreiddan virðisaukaskatt að fjárhæð 96.488 kr.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.