Dagsetning                       Tilvísun
28. maí 1990                              84/90

 

Vsk. – umboðsmenn flugfélags og bifreiðastöð.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 2. febrúar 1990, þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á eftirtöldum atriðum:

  1. Spurt er hvort starfsemi umboðsmanna flugfélags sé skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Þeir starfa sem verktakar við afgreiðslu flugvélanna hver á sínum stað og er greitt fyrir þá þjónustu með þeim hætti að þeir fá fasta greiðslu fyrir hverja flugvél sem þeir afgreiða. Flugvélarnar flytja bæði farþega og vélar og því nær alltaf hvoru tveggja í hverri ferð.

Svar: Að áliti ríkisskattstjóra er atvinnustarfsemi af því tagi sem lýst er í spurningunni skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Ekki verður talið að hún geti fallið að neinu leyti undir ákvæði 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna, heldur er hér um að ræða aðföng flugfélags, þ.e. 4. mgr. greinarinnar á við í þessu tilviki.

  1. Spurt er hvort þjónusta leigubifreiðastöðvar sé skattskyld samkvæmt lögunum. Bifreiðastjórarnir eru eigendur bílanna en starfsemi stöðvarinnar felst í símaþjónustu, innheimtu og annarri þeirri þjónustu sem nauðsynleg er við þessa starfsemi.

Svar: Að áliti ríkisskattstjóra er hér um virðisaukaskattsskylda starfsemi að ræða, sbr. svar við fyrri spurningu, og ber bifreiðastöðvum, þar með töldum sameignarbifreiðastöðvum bílstjóra, að innheimta og skila virðisaukaskatti af afgreiðslu- og stöðvargjöldum, hverju nafni sem nefnast, þ.m.t. innheimtugjöldum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.