Dagsetning                       Tilvísun
28. maí 1990                              85/90

 

Virðisaukaskattur af störfum tamningamanna.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 21. janúar sl., þar sem fjallað er um starfsemi Félags tamningamanna og óskað upplýsinga um stöðu félagsins í ljósi laga um virðisaukaskatt.

Auk þess að svara fyrirspurn félagsins þykir af þessu tilefni rétt að koma á framfæri við félagið nokkrum atriðum sem varða virðisaukaskatt af tamningu hesta og reiðkennslu. Verður fyrst vikið að þeim atriðum, en síðan fjallað um starfsemi félagsins eins og henni er lýst í bréfinu.

I.

Hvað varðar tamningu hesta og reiðkennslu má greina á milli þess hvort um er að ræða;

a) störf tamningamanna við tamningu hesta,
b) starfsemi reiðskóla eða
c) reiðþjálfun í íþróttafélagi.

Um a): Tamning hesta í atvinnuskyni er virðisaukaskattsskyld þjónusta samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem kveður á um það að skattskylda samkvæmt lögunum nái til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega undanþegin skattinum. Tekið skal fram að þessi starfsemi getur að mati ríkisskattstjóra ekki talist falla undir undanþáguákvæði 5. tölul. 3. mgr. sömu greinar (íþróttastarfsemi).

Um b): Starfsemi reiðskóla er virðisaukaskattsskyld á sama grundvelli og greinir í a), en reiðkennsla verður ekki felld undir 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt sem kveður á um að starfsemi skóla og menntastofnana sé undanþegin virðisaukaskatti. Það ákvæði tekur til allrar venjulegrar skóla- og háskólakennslu, faglegar menntunar, endurmenntunar og annarrar kennslu- og menntastarfsemi sem hefur unnið sér sess í almenna skólakerfinu. Námskeið og skólahald sem ekki felur í sér faglega menntun, heldur tómstundafræðslu þátttakenda o.þ.h., er virðisaukaskattsskyld starfsemi.

Um c): Reiðþjálfun í íþróttadeildum hestamannafélaga sem eru meðlimir í Íþróttasambandi Íslands er undanþegin virðisaukaskatti að því tilskildu að eingöngu sé um þjálfun félagsmanna að ræða. Litið er á reiðþjálfun í íþróttadeildum hestamannafélaga sem eðlilegan þátt í íþróttastarfsemi félaganna og þannig með hana farið á sama hátt og kennslu og þjálfun sem fram fer í öðrum íþróttafélögum innan ÍSÍ, en íþróttastarfsemi er undanþegin virðisaukaskatti skv. 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. .

II.

Námskeið á vegum Félags tamningamanna fyrir félagsmenn og umsækjendur um aðild að félaginu eru undanþegin virðisaukaskatti skv. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt ef náminu er ætlað að bæta eða viðhalda þekkingu vegna atvinnu þátttakenda.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.