Dagsetning                       Tilvísun
28. maí 1990                              87/90

 

Virðisaukaskattur – sjávarútvegssýning.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 19. desember 1989, þar sem fram kemur að breskt sýningarfyrirtæki muni á þessu ári standa fyrir sjávarútvegssýningu hér á landi með þátttöku bæði innlendra og erlendra fyrirtækja. Er óskað upplýsinga um hvort og þá með hvaða hætti greiddur skuli virðisaukaskattur af sölu á sýningarbásum, þ.e. ekki aðeins sölu á sýningarrýminu sjálfu, heldur og sölu á efni og uppsetningu básanna sjálfra. Jafnframt hvernig fara skuli með virðisaukaskatt af þjónustu við flutninga á sýningarmunum o.þ.h. sem hið breska fyrirtæki (eða annað erlent fyrirtæki á þess vegum) mun inna af hendi.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

I.

Útleiga á sýningarrými og annarri aðstöðu til kynningar á framleiðslu- eða söluvörum aðila eða þjónustustarfsemi hans er að áliti ríkisskattstjóra skattskyld starfsemi (auglýsinga­þjónusta), sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Þannig skal sá sem stendur fyrir sýningunni (sýningarhaldari) innheimta og skila virðisaukaskatti af heildarendurgjaldi sem einstakir sýnendur greiða fyrir þátttöku, svo og vegna kaupa á annarri skattskyldri þjónustu og vörum. Sala á efni og vinnu við uppsetningu sýningarbása o.fl. er skattskyld.

Aðgangseyrir að vörusýningum er virðisaukaskattsskyldur.

Leigugjald sem rekstraraðilar veitingasölu, söluturnar eða skemmtigarðs greiða sýningarhaldara er hins vegar undanþegið virðisaukaskatti, sbr. 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 (fasteignaleiga), nema leigusali hafi fengið heimild til frjálsrar skráningar, sbr. 6. gr. laganna. Sama gildir um leigu salar til sýningarhaldara.

Um frádrátt innskatts þegar aðili hefur bæði með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi og starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskatti vísast til reglugerðar nr. 530/1989.

II.

Vöruflutningar innanlands eru skattskyldir. Samkvæmt 2. tölul. l. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 eru vöruflutningar milli landa þó undanþegnir skattskyldri veltu, svo og vöruflutningar innan lands þegar flutt er beint til eða frá landinu. Skilyrði þess að ákvæðið eigi við vöruflutninga innan lands er að um sé að ræða einn flutningssamning frá tilteknum stað innan lands til tiltekins erlends áfangastaðar eða öfugt. Sé þetta skilyrði uppfyllt getur farmflytjandi sem hefur með höndum millilandaflutninga talið allt farmgjaldið til undanþeginnar veltu sinnar þótt hluti þess varði flutning innan lands.

Áfangastaður innan lands er sá staður sem tilgreindur er á farmskírteini. Farmflytjandi skal ávallt geta lagt fram nauðsynleg skjöl til sönnunar því að undanþágan taki til þjónustu hans. Þau skjöl geta verið afrit af farmskírteini eða farmreikningi þar sem áfangastaður kemur fram.

Kaupi aðalfarmflytjandi þjónustu undirverktaka við innanlandsflutninginn ber þeim síðarnefnda að leggja virðisaukaskatt á flutningsþjónustu sina. Sá skattur kemur sem innskattur hjá aðalfarmflytjanda.

Erlendum aðila sem selur fyrrgreinda þjónustu hér á landi ber að tilkynna um starfsemi sína til skráningar hjá skattstjóra samkvæmt almennum ákvæðum laga nr. 50/1988, enda nemi sala hans á skattskyldri vöru og þjónustu a.m.k. 155.800 kr. á ári.

III.

Samkvæmt hjálagðri reglugerð sem fjármálsráðherra gaf út maí sl. um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila o.fl. er sala ýmissar þjónustu, m.a. auglýsingaþjónustu og leiga lausafjármuna, til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi undanþegin skattskyldri veltu samkvæmt lögum nr. 50/1988 ef öðru hvoru eftirtalinna skilyrða er fullnægt:

a) Þjónustan er nýtt að öllu leyti erlendis.

b) Kaupandi gæti – ef starfsemi hans væri skráningarskyld hér á landi samkvæmt lögum um virðisaukaskatt – talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts, sbr. 15. og 16. gr. laganna. Í þessu tilviki þarf kaupandi að sýna fram á hvers konar atvinnurekstur hann hefur með höndum, sjá nánar 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar.

Að áliti ríkisskattstjóra verður að telja að aðkeypt þjónusta vegna vörusýningar, þ.e. leiga sýningarsvæðis eða -bása og annarra lausafjármuna, falli ekki undir a-lið, þ.e. hún telst nýtt hér á landi. Í þessum tilvikum gæti undanþága hins vegar byggst á b-lið.

Varði þjónusta eitthvert þeirra atriða sem tilgreind eru í 3. gr. reglugerðarinnar skal – þrátt fyrir undanþáguákvæði l. og 2. gr. – ávallt telja söluna til skattskyldrar veltu. Þannig skal t.d. telja endurgjald fyrir vinnu við lausafjármuni og þóknun fyrir vöruflutninga til skattskyldrar veltu. Í þessu sambandi skal vakin athygli á því að skv. 3. mgr. 43. gr. laga nr. 50/1988, með áorðnum breytingum, er fjármálaráðherra heimilað að setja með reglugerð reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem erlend fyrirtæki hafa greitt hérlendis vegna kaupa, aðvinnslu, geymslu eða flutnings á vörum sem flytja á úr landi. Reglugerð á grundvelli þessa ákvæðis hefur ekki enn verið sett.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.