Dagsetning                       Tilvísun
28. maí 1990                              88/90

 

Virðisaukaskattur af þjónustu fyrir erlenda aðila.

Vísað er til erindis yðar, dags. 27. desember 1989, þar sem óskað er upplýsinga um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila. Nánar tiltekið er hér um að ræða kannanir fyrir erlenda aðila og ráðgjafarstörf fyrir aðila í Færeyjum.

Af þessu tilefni sendist yður hér með ljósrit af reglugerð um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila o.fl. sem fjármálaráðherra gaf út 2. maí sl.

Samkvæmt I. kafla reglugerðarinnar er sala tiltekinnar þjónustu til erlendra aðila undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu. Samkvæmt 3. tölul. 2. gr. tekur undanþágan til ráðgjafarþjónustu og að áliti ríkisskattstjóra tekur ákvæðið einnig til vinnu við skoðanakönnun.

Undanþága þessi tekur til viðskipta frá og með l. janúar sl.

Skilyrði fyrir undanþágu eru að selt sé til aðila sem hvorki hefur búsetu né starfsstöð hér á landi og

a) þjónustan sé nýtt að öllu leyti erlendis

eða

b) kaupandi gæti – ef starfsemi hans væri skráningarskyld hér á landi samkvæmt lögum um virðisaukaskatt – talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts, sbr. 15. og 16. gr. laganna. Í þessu tilviki þarf kaupandi að sýna fram á hvers konar atvinnurekstur hann hefur með höndum, sjá nánar 2. mgr.1. gr. reglugerðarinnar.

Þjónusta sem er í tengslum við starfsemi aðila, eignir, réttindi eða hagsmunagæslu hér á landi fellur að áliti ríkisskattstjóra ekki undir a-lið, þ.e. þá telst hún að einhverju eða öllu leyti hér á landi. Í þessum tilvikum gæti undanþága hins vegar byggst á b-lið.

Til dæmis um þjónustu sem telja má að nýtt sé að hluta eða að öllu leyti hér á landi má almennt nefna vinnu sem varðar viðskiptahagsmuni hins erlenda kaupanda hér á landi, svo og aðstoð vegna fyrirhugaðra kaupa eða stofnunar fyrirtækis hér á landi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson