Dagsetning                       Tilvísun
28. maí 1990                              89/90

 

Virðisaukaskattur af starfsemi heilsuhælis.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 18. des. 1989, þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því, að hvaða leyti reglugerð nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana, eigi við um starfsemi heilsuhælis sem umbjóðandi yðar rekur. Í bréfinu er einstökum rekstrarþáttum starfseminnar lýst nánar.

Áður en vikið verður að einstökum þáttum þykir rétt að undirstrika að starfsemi heilsuhæla er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 2. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Samkvæmt þessu ber ekki að greiða virðisaukaskatt af endurgjaldi því sem heilsuhælið áskilur sér fyrir dvöl vistfólks, aðhlynningu ýmiss konar og þjónustu sem telst eðlilegur hluti af starfsemi þess sem heilsuhælis.

Á hinn bóginn er ber stofnunum og öðrum aðilum, sem hafa með höndum starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskatti, að greiða virðisaukaskatt af tiltekinni eigin þjónustu og úttekt til eigin nota, sbr. reglugerð nr. 562/1989, sem sett er á grundvelli 2. mgr. 3. gr. tilvitnaðra laga. Hér á eftir verður síðan fjallað um einstaka þætti í starfsemi heilsuhælisins í sömu röð og þeim er lýst í tilvitnuðu bréfi yðar:

  1. Rekstur mötuneytis fyrir vistfólk á sjúkrahúsum, heilsuhælum og öðrum hliðstæðum stofnunum er að áliti ríkisskattstjóra undanþeginn virðisaukaskatti. Bæði er að reksturinn hlýtur að teljast nauðsynlegur þáttur í þjónustu þessara stofnana og samkeppnisaðstæður þykja í þessu tilviki ekki vera með þeim hætti að þær geri skattskyldu nauðsynlega.

    Rekstur mötuneytis fyrir starfsfólk heilsuhælisins telst hins vegar skattskyld starfsemi. Þar af leiðir að innheimta ber virðisaukaskatt af sölu fæðis til starfsmanna, gesta og allra annarra en vistfólks.
  1. Rekstur þvottahúss heilsuhælisins er skattskyld starfsemi, sbr. 2. tölul. l. mgr. 2. gr. áðurnefndrar reglugerðar nr. 562/1989, enda telst hún rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Um ákvörðun skattverðs, bókhald og uppgjör skattsins vísast að öðru leyti til reglugerðarinnar.
  1. Aðkeypt vinna iðnaðarmanna á byggingarstað, hvort sem um er að ræða nýbyggingu, viðhald eða endurbyggingu er virðisaukaskattskyld. Vinna starfsmanna heilsuhælisins, jafnt iðnaðarmanna sem ófaglærðra, við nýbyggingu, viðhald og endurbyggingu er skattskyld skv. 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 576l1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi. Þess skal sérstaklega getið að vinna við viðgerðir og viðhald bygginga er aðeins skattskylt sé heildarkostnaður við framkvæmdirnar a.m.k. 545.000 kr. á ári (miðað við vísitölu 1. jan. sl.).
  1. Störf við daglega tiltekt bæði á göngum og herbergjum vistfólks samhliða aðhlynningu teljast eðlilegur þáttur í starfsemi stofnunarinnar og ber því ekki að greiða virðisaukaskatt af þeirri starfsemi. Öll önnur ræstingar- og hreingerningarstörf, jafnt dagleg ræsting sem meiri háttar hreingerningar, eru skattskyld skv. 3. tölul. I. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 562/1989.
  1. Rekstur garðyrkjustöðvar og hænsnabús hælisins er skattskyld starfsemi samkvæmt almennum ákvæðum laga um virðisaukaskatt. Um skattverð afurða vísast til 8. gr. laganna.
  1. Rekstur verslunar er virðisaukaskattsskyld starfsemi samkvæmt almennum ákvæðum laga um virðisaukaskatt. Reglugerð nr. 564/1989, um undanþágu á virðisaukaskatti vegna góðgerðarstarfsemi, tekur að áliti rikisskattstjóra ekki til þessarar starfsemi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.