Dagsetning Tilvísun
28. maí 1990 91/90
Virðisaukaskattur – starfsemi búnaðarfélags.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 15. janúar 1990, þar sem meðal annars er fjallað um fyrirhuguð vélakaup félagsins og spurt hvort búnaðarfélaginu „… beri að standa skil á virðisaukaskatti af þessari vél, eða hvort ríkisskattstjóri er tilbúinn að fella hann niður og gera þar með þessi kaup möguleg.“
Af þessu tilefni skal tekið fram að skylda til að greiða virðisaukaskatt af innkaupum skattskyldrar vöru og þjónustu er almenn skylda allra. Einu undantekningarnar frá þeirri reglu eru þær undanþágur sem felast í 12. gr. laga um virðisaukaskatt (útflutningur o.fl.}. Hins vegar geta þeir aðilar sem hafa skattskylda starfsemi með höndum (skráðir aðilar) talið þann virðisaukaskatt sem eingöngu varðar sölu þeirra á vörum og skattskyldri þjónustu til innskatts og fengið hann þannig endurgreiddan.
Að áliti ríkisskattstjóra er rétt að líta svo á að búnaðarfélag sem hefur með höndum útleigu eða rekstur tækja og vinnuvéla sé skattskyldur aðili í skilningi laga um virðisaukaskatt, sbr. l. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Þannig skal búnaðarfélag, sem hefur þessa starfsemi með höndum, tilkynna um starfsemi sína til skráningar hjá skattstjóra og innheimta og skila virðisaukaskatti af andvirði þjónustu sinnar. Þó er starfsemin ekki skráningarskyld ef andvirði sölu skattskyldrar vöru og þjónustu er lægra en 155.800 kr. á ári (miðað við byggingavísitölu l. janúar 1990).
Athygli skal vakin á því að þegar eigandi tekur út úr eigin fyrirtæki skattskylda þjónustu til eigin nota eða þegar viðskipti eiga sér stað milli skyldra eða tengdra aðila skal miða skattverð – það verð sem virðisaukaskattur er reiknaður af – við almennt gangverð í sams konar viðskiptum milli ótengdra aðila. Liggi slíkt almennt gangverð ekki fyrir skal miða skattverð við reiknað útsöluverð þar sem tekið er tillit til alls kostnaðar að viðbættri álagningu sem almennt er notuð á vörur eða þjónustu af sama tagi, sbr. nánar III. kafla laga um virðisaukaskatt.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.