Dagsetning Tilvísun
28. maí 1990 92/90
Virðisaukaskattur af aðföngum leikfélaga.
Vísað er til erindis yðar, dags. 16. janúar 1990, um virðisaukaskatt af starfsemi-leikstjóra, leikmyndateiknara og fleiri aðila sem selja vinnu sína til leikfélaga.
Í þessu sambandi er rétt að taka fram að þeir einir eru skattskyldir samkvæmt lögum um virðisaukaskatt sem hafa með höndum sjálfstæða starfsemi eða atvinnurekstur. Launþegar eru ekki skattskyldir samkvæmt lögunum. Þess vegna þarf að kanna hverju sinni hvort greiðsla fyrir leikstjórn o.s.frv. er launagreiðsla eða greiðsla til verktaka.
Í lögum um virðisaukaskatt segir (12. tölul. 3. mgr. 2. gr.) að starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverks og sambærileg liststarfsemi sé undanþegin virðisaukaskatti. Að áliti ríkisskattstjóra ber að skilja undanþáguákvæði þetta þannig að m.a. samning leikrits og leikstjórn sé undanþegin virðisaukaskatti. Þá er vinna höfundar leikmyndar við hönnun hennar undanþegin á grundvelli þessa ákvæðis. Sama gildir um störf flytjenda (leikara, dansara, tónlistarmanna o.s.frv.) sem fram koma í leiksýningu.
Undanþáguákvæðið tekur að áliti ríkisskattstjóra ekki til starfa annarra sjálfstætt starfandi aðila sem koma að leiksýningu, svo sem ljósameistara, hljóðmeistara og höfunda búninga og gerfa.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.