Dagsetning Tilvísun
11. júní 1990 93/90
Virðisaukaskattur – kaup á hugbúnaði erlendis frá.
Í bréfi yðar, dags. 23. janúar 1990, óskið þér eftir upplýsingum um virðisaukaskatt af kaupum tiltekins tölvuhugbúnaðar frá norskum seljanda. Mun hugbúnaður þessi vera ætlaður til notkunar fyrir bókasöfn.
Í bréfinu kemur fram að kaupandi á Íslandi gerir samning við hinn norska seljanda um afnotarétt af hugbúnaðinum. Kaupandi greiðir ákveðna upphæð við afhendingu hugbúnaðarins og síðan árlegt gjald sem tryggir honum viðhald á hugbúnaðinum.
Hinn norski seljandi hefur umboðsaðila hér á landi og greiðir honum ákveðin umboðslaun fyrir hverja sölu hingað til lands og til viðbótar ákveðinn hlut af árlegu gjaldi. Umboðsaðili selur notendum þjónustu og kennslu. Að áliti ríkisskattstjóra er hér um að ræða kaup á tölvuþjónustu frá útlöndum sem fellur undir ákvæði II. kafla reglugerðar um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá. Ljósrit af reglugerð þessari fylgir hér með.
Kaupi bókasafn þessa þjónustu ber því að greiða virðisaukaskatt af andvirði hennar, sbr. l. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, en 2. mgr. greinarinnar tekur ekki til bókasafna. Bæði skal greiða virðisaukaskatt af þeirri upphæð sem greidd er við afhendingu hugbúnaðarins og hinu árlega gjaldi. Um greiðslustað og gjalddaga þessara greiðslna vísast til 6. gr. reglugerðarinnar.
Vinna við uppsetningu tölvubúnaðar og hugbúnaðar er virðisaukaskattsskyld. Sama gildir um leiðbeiningaþjónusta og ráðgjöf fyrir notendur hugbúnaðarins.
Tölvunám og kennsla í notkun hugbúnaðar sem fram fer á formlegum námskeiðum án þess að tengjast sölu tölvu, hugbúnaðar eða annarri tölvuþjónustu til viðkomandi nemanda er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt (kennslustarfsemi).
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.