Dagsetning Tilvísun
3. júní 1990 105/90
Virðisaukaskattur – markaðs- og sölustörf.
Með bréfi yðar, dags. 10. janúar sl., spyrjist þér fyrir um hvort starfsemi verktaka sem vinna fyrir skóla við markaðs- og sölustörf sé virðisaukaskattsskyld. Segir bréfinu að verkefni þessi standi yfir í einn til sex mánuði.
Til svars erindinu skal tekið fram að virðisaukaskattsskyldir eru allir þeir sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu. Þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 155.800 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1990) eru þó undanþegnir skattskyldu. Markaðs- og sölustörf sem aðili hefur með höndum í atvinnuskyni teljast skattskyld starfsemi.
Samkvæmt framansögðu ber umræddum verktökum að innheimta og skila í ríkissjóð virðisaukaskatti af heildarendurgjaldi fyrir þjónustu sína, enda nemi samtals sala þeirra á skattskyldri vöru eða þjónustu meira en 155.800 kr. á ári.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.