Dagsetning Tilvísun
6. júlí 1990 107/90
Virðisaukaskattur af bifreiðaviðskiptum.
Embætti ríkisskattstjóra hafa að undanförnu borist nokkrar fyrirspurnir frá B og einstökum bifreiðainnflytjendum um virðisaukaskatt vegna sölu bifreiða o.fl. Rétt þykir að svara fyrirspurnum þessum í einu lagi. Tekið skal fram að ekki er um að ræða tæmandi umfjöllun um viðfangsefnið.
- KOSTNAÐARLIÐIR Á SÖLUREIKNINGUM
Við sölu nýrra bifreiða er algengt að bifreiðaumboð tilgreini ýmsa kostnaðarliði á sölureikningum sínum auk söluverðs viðkomandi bifreiðar. Þessir liðir geta t.d. verið ryðvörn, skráning, skrásetningarnúmer, vátrygging ökumanns, aðrar tryggingar, sala úr öðrum deildum, vextir, stimpilgjald og lántökukostnaður.
Skipta má þessum kostnaðarliðum í fjóra flokka:
a) Sala á skattskyldri vöru eða þjónustu.
b) Sala á vöru eða þjónustu sem ekki ber virðisaukaskatt.
c) Kostnaður sem er útlagður kostnaður fyrir vörukaupa.
d) Kostnaður sem er hluti skattverðs.
Verður hér á eftir stuttlega gerð grein fyrir þeim reglum sem gilda um hvern þessara flokka:
Um a) og b): Skattskyld vara og þjónusta eða sala á vöru og þjónustu sem ekki ber virðisaukaskatt færist á sölureikning eins og hver önnur sala. Gæta verður þess að skv. 20. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt er ekki heimilt að hafa á sama reikningi sölu á skattskyldri vöru/þjónustu og vöru/þjónustu sem ekki ber virðisaukaskatt.
Um c): Í 19. gr. reglug. nr. 501/1989 eru ákvæði um útlagðan kostnað sem þjónustusali hefur lagt út fyrir þjónustukaupa. Til þess að kostnaður geti talist útlagður kostnaður verða öll eftirtalin skilyrði að vera uppfyllt:
- Kaupandi sé endurkrafinn um kostnað án nokkurrar álagningar eða kostnaðar.
- Reikningur vegna kostnaðarins sé skráður á nafnkaupanda (kaupin fari fram í nafni kaupanda vöru).
- Kaupandi fái afhent frumrit reiknings vegna kostnaðarins.
Þeir kostnaðarliðir á sölureikningi bifreiðaumboðs sem virðast geta komið til greina í þessu sambandi eru t.d. ryðvörn, skráning, skrásetningarnúmer, trygging bifreiðar og ökumanns og sala úr öðrum deildum fyrirtækisins.
Stimpilgjald er einnig dæmi um útlagðan kostnað. Með tilliti til eðlis stimpilgjalds er heimilt að halda því fyrir utan skattverð sem útlögðum kostnaði þótt frumrit reiknings sé skráð á nafn seljanda og kaupandi fái frumrit ekki afhent. Skilyrði er hins vegar að seljandi innheimti það af kaupanda án nokkurs álags eða þóknunar.
Uppgjör milli kaupanda og seljanda vegna útlagðs kostnaðar skal fara fram á sérstöku uppgjörsblaði þar sem tilgreind er fjárhæð allra reikninga, tegund kostnaðar og nöfn seljenda. Seljandi skal varðveita afrit þessa uppgjörsblaðs sem bókhaldsgagn.
Um d): Í 7. gr. laga um virðisaukaskatt er fjallað um það hvað teljist til skattverðs. Þar kemur fram að skattverð skuli miða við heildarendurgjald eða heildarandvirði hins selda. Með tilliti til þessa verður að telja hvers konar kostnað eða innheimtuliði, sem kaupandi er krafinn um vegna sölu bifreiðar og ekki getur talist til útlagðs kostnaðar, til skattverðs. Þetta á m.a. við um hverskonar lántökukostnað sem kaupandi er krafinn um vegna afborgunarviðskipta. Þó teljast vextir og verðbætur sem til falla eftir afhendingu ekki til skattverðs að uppfylltu því skilyrði að fram komi gagnvart greiðanda skuldar hver vaxta- og verðbótagreiðsla sé hverju sinni, þ.e. af hverri einstakri afborgun.
- VIÐSKIPTI MEÐ NOTAÐAR BIFREIÐAR
Sala notaðra bifreiða og annarra lausafjármuna í atvinnuskyni er virðisaukaskattsskyld starfsemi. Þannig skal sá sem í atvinnuskyni kaupir notaðar bifreiðar og selur innheimta virðisaukaskatt af heildarsöluverðinu. Um skattverð (það verð sem útskattur reiknast af) vísast til umfjöllunar í kafla 1 hér að framan.
Innskattur við kaup af skráðum aðila
Sá sem kaupir bifreið til endursölu getur talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem hann greiðir seljanda við kaupin – þ.e. þann virðisaukaskatt sem kemur fram á reikningi seljanda. Sama gildir ef aðili flytur inn bifreið til endursölu. Þá er innskatturinn sá virðisaukaskattur sem greiddur er í tolli.
Kaup af óskráðum eða kaup fólksbifreiðar
Þegar bifreið er keypt til endursölu af óskráðum aðila, t.d. einstaklingi, kemur enginn virðisaukaskattur fram á reikningi seljanda – skv. l. mgr. 22. gr. laga um virðisaukaskatt er óskráðum aðila óheimilt að tilgreina á reikningi eða gefa á annan hátt til kynna á honum að virðisaukaskattur sé innifalinn í reikningsfjárhæð.
Þá er þess að geta að skráðir aðilar þurfa ekki að innheimta virðisaukaskatt af sölu fólksbifreiða sem þeir hafa notað við starfsemi sína – enda fá þeir ekki innskattsfrádrátt vegna kaupa fólksbifreiða (nema til endursölu eða bílaleigurekstrar).
Í þessum tilvikum greiðir kaupandi bifreiðar (endurseljandi) ekki neinn virðisaukaskatt við kaupin og hefur þar af leiðandi engan innskattsfrádrátt vegna kaupanna.
Í ofangreindum tilvikum – þegar enginn skattur kemur fram á reikningi seljanda bifreiðarinnar – getur endurseljandi notað þá reglu sem fram kemur í 10. gr. laga um virðisaukaskatt, þ.e. miðað skattverð við 80,32% af mismun innkaupsverðs og söluverðs bifreiðarinnar að meðtöldum virðisaukaskatti. Sé söluverð lægra en kaupverð reiknast engin skattur. Þegar 10. gr. reglan er notuð verður að halda sérstaklega utan um sölu hverrar bifreiðar, annaðhvort í bókhaldi eða með öðrum bókhaldsgögnum.
Dæmi:
Kaupverð 60.000 kr
Söluverð 100.000 kr.
Skattverð: 100.000 kr. – 60.000 kr. – 40.000 kr. x 80,32% = 32.128 kr.
Útskattur: 32.128 kr. x 24,5% = 7.871 kr.
Sá sem ákvarðar skattverð notaðrar fólksbifreiðar samkvæmt aðferð 10. gr. má ekki tilgreina fjárhæð virðisaukaskatts á sölureikningi sinum vegna sölunnar eða á annan hátt þannig að hægt sé að reikna út fjárhæð virðisaukaskattsins.
Athuga ber að í 10. gr. felst heimildarákvæði – það er heimilt en ekki skylt að nota þessa aðferð við ákvörðun skattverðs. Hins vegar er heimild til notkunar aðferðarinnar bundin við notaðar fólksbifreiðar – engin heimild er til að nota þessa aðferð við sölu annars konar bifreiða eða notaðra lausafjármuna yfirleitt.
Innskattur af viðgerðum og varahlutum
Sá sem verslar með notaðar bifreiðar í atvinnuskyni getur talið til innskatts virðisaukaskatt af varahlutum og viðgerðarvinnu sem hann kaupir í þessu sambandi af öðrum skattskyldum aðilum.
Þegar skattverð notaðrar fólksbifreiðar er ákvarðað með aðferð 10. gr. má ekki draga greiddan kostnað vegna viðgerðar á bifreiðinni frá skattverði. Hins vegar má telja virðisaukaskatt vegna viðgerðakostnaðar til innskatts samkvæmt almennum reglum.
Útgáfa sölureiknings við sölu notaðrar bifreiðar
Virðisaukaskattsskyldur aðili skal gefa út sölureikning samkvæmt almennum reglum virðisaukaskattslaga við sölu eða afhendingu á notaðri bifreið, enda teljist salan til skattskyldrar veltu hans. Minnt skal á að sala fólksbifreiða telst ekki til skattskyldrar veltu nema seljandi stundi bifreiðaviðskipti í atvinnuskyni eða reki bílaleigu.
Ekki skiptir máli hvernig greiðsla fer fram t.d. hvort andvirði bifreiðarinnar er látið uppí kaup á annarri bifreið eða af hverjum bifreiðin er keypt. Kaupsamningar og afsöl eru ekki fullnægjandi sölureikningar og geta því ekki legið til grundvallar hugsanlegum frádrætti innskatts.
Ef sala telst ekki til skattskyldrar veltu aðila, þ.m.t. þegar einstaklingur selur notaða einkabifreið, er engin skylda til útgáfu sölureiknings. Fer þá eftir venjum í þessum viðskiptum um útgáfu söluskjala. Rekstraraðilar verða þó jafnan að gæta að ákvæðum bókhaldslaga og bókhaldsreglugerðar um fylgiskjöl i bókhaldi.
Ítrekað skal að óskattskyldir aðilar, t.d. einstaklingar sem ekki stunda atvinnustarfsemi, eiga ekki að innheimta virðisaukaskatt. Þeim er óheimilt að tilgreina virðisaukaskatt á sölureikningi sem þeir gefa út eða gefa í skyn að virðisaukaskattur sé innifalinn í reikningsfjárhæð.
- ÁBYRGÐARVIÐGERÐIR
Ábyrgðarviðgerðir á bifreiðum (warranty claims) – þar sem framleiðanda (erlendum eða innlendum) eða innflytjenda er gerður reikningur fyrir viðgerð vegna galla – teljast til skattskyldrar veltu samkvæmt almennum ákvæðum laga um virðisaukaskatt. Þannig skal bifreiðaverkstæði innheimta og skila virðisaukaskatti af heildarandvirði viðgerðar,bæði vinnu og efni. Bifreiðainnflytjandi nýtur innskatts-frádráttar vegna ábyrgðarviðgerða sem hann kaupir af þjónustuverkstæðum sínum.
Bifreiðinnflytjandi sem framkvæmir ábyrgðarviðgerð á eiginkostnað á eigin verkstæði þarf ekki að greiða virðirsaukaskatt af vinnu eða útteknu efni. Skattskylda stofnast hins vegar ef annar aðili, t.d. erlendur framleiðandi, er krafin um kostnaðinn.
Engin heimild er í lögum um virðisaukaskatt til að endurgreiða erlendum framleiðendum þann virðisaukaskatt sem fellur á þá vegna ábyrgðarviðgerða. Ekki er talið að m sé að ræða útlflutning á vöru eða þjónustu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.