Dagsetning                       Tilvísun
16. júlí 1990                              111/90

 

Virðisaukaskattur – tónleikar, leiksýningar o.fl.

Aðgangseyrir að tónleikum, íslenskum kvikmyndum, listdanssýningum, leiksýningum og leikhúsum er undanþeginn virðisaukaskatti, enda tengist samkomur þessar ekki á neinn hátt öðru samkomuhaldi eða veitingastarfsemi, sbr. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.

Ríkisskattstjóri túlkar lagaákvæði þetta þannig: Um samkomur sem undanþegnar eru

Undanþágan nær aðeins til skemmtana og samkoma sem sérstaklega eru taldar upp í lagaákvæðinu. Athygli skal vakin á eftirfarandi:

Tónleikar. Með tónleikum er átt við lifandi tónlistarflutning fyrir áheyrendur þar sem ekki er gert ráð fyrir dansi. Undanþáguákvæðið tekur til tónleika óháð því hvort þar er flutt sígild tónlist, jazz, blues, popp eða önnur tegund tónlistar.

Íslenskar kvikmyndir. Það telst íslensk kvikmynd í þessu sambandi þegar hún hefur að meginviðfangi íslenskt umhverfi, íslenskir aðilar hafa listrænt forræði yfir myndinni, hún er með íslensku tali og er kynnt innanlands og erlendis sem íslensk kvikmynd.

Leiksýningar. Það er leiksýning þegar einn eða fleiri leikendur flytja fyrirfram saminn texta (leikrit) frammi fyrir hópi áhorfenda.

Aðgangseyrir að skemmtunum og samkomum, sem ekki eru taldar upp í undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. , er skattskyldur, enda sé um atvinnustarfsemi að ræða. Til dæmis eru dansleikir skattskyld skemmtan og skiptir þá ekki máli þótt samkomuhaldari velji skemmtuninni annað heiti, en á slíku hefur borið. Útisamkomur, t.d. um verslunarmannahelgi, sýningar á erlendum kvikmyndum og aðgangseyrir að dáleiðslusýningum eru önnur dæmi um virðisaukaskattsskyldar samkomur.

Tekið skal fram að skólaskemmtanir sem ekki eru skemmtanaskattsskyldar, þ.e. skemmtanir skóla og skólafélaga sem aðeins eru fyrir nemendur og kennara ásamt gestum þeirra og haldnar eru undir umsjá skólastjórnar, eru ekki virðisaukaskattsskyldar þótt þær séu haldnar utan húsa viðkomandi skóla.

Skilyrði fyrir undanþágu

Skilyrði fyrir undanþágu er að samkoma sé ekki í neinum tengslum við annað samkomuhald eða veitingastarfsemi.

Annað samkomuhald. Heildarandvirði aðgöngumiða er virðisaukaskattsskylt ef skemmtun eða önnur samkoma sem ekki fellur undir undanþáguákvæðið er auglýst eða kynnt á annan hátt samhliða undanþeginni samkomu og hún haldin samhliða, á undan eða á eftir undanþeginni samkomu, þannig að í raun sé um samfellda samkomu að ræða. Skiptir þá almennt ekki máli hvort aðgangur er seldur sérstaklega að hinni undanþegnu samkomu eða sami aðgöngumiði gildi. Þegar aðgangur er seldur samhliða að samkomu sem fellur undir undanþáguákvæðið og samkomu sem ekki nýtur undanþágu er heildarandvirði aðgöngumiða skattskylt með sama hætti.

Samkvæmt framansögðu skal innheimta og skila virðisaukaskatti af heildarandvirði aðgöngumiða ef skemmtun samanstendur t.d. af leiksýningu og dansleik. Einnig ef tónleikar eru haldnir í tengslum við útihátíð. Ekki er talið að skilyrðið sé rofið ef samkoma samanstendur af margs konar undanþegnum samkomum, t.d. tónleikum og leiksýningu.

Veitingastarfsemi. Samkoma fellur ekki undir undanþáguákvæðið ef veitingar eru seldar eða framreiddar á meðan dagskrá samkomu stendur, þ.e. meðan t.d.tónlistarflutningur eða kvikmyndasýning fer fram. Sala heitra máltíða, áfengra drykkja og hressingar (kaffi, gosdrykki) telst veitingasala í þessu sambandi. Veitingasala utan þess salar þar sem tónleikar eru haldnir, kvikmynd sýnd o.s.frv. hefur ekki áhrif á undanþáguna.

Miða má við að jafnan skuli innheimta og skila virðisaukaskatti fari samkoma fram í veitingahúsi með reglulega starfsemi, en í öðrum tilvikum verður að meta þátt veitinga í heildaryfirbragði samkomunnar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.