Dagsetning                       Tilvísun
16. júlí 1990                             112/90

 

Endurgreiðsla virðisaukaskatts til sveitarfélaga.

Þann 7. júní sl. gaf fjármálaráðherra út nýja reglugerð um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra stofnana. Reglugerðin, sem er nr. 248/1990, leysir af hólmi reglugerð nr. 561/1989 um sambærilegt efni.

Í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 12. júní sl., var fjallað um helstu nýmæli og breytingar sem felast í reglugerðinni. Að gefnu tilefni verður hér á eftir rætt um ýmis álitaefni sem hafa komið fram um túlkun á endurgreiðsluákvæðunum í III. kafla reglugerðarinnar.

 I.

Endurgreiðsla er takmörkuð við þá vinnu og þjónustu sem talin er upp í 12. gr. reglugerðarinnar. Í 13. gr. kemur fram að ekki skiptir máli af hverjum þjónusta er keypt. Þannig tekur endurgreiðslan til kaupa vinnu og þjónustu skv. 12. gr. bæði af (a) atvinnufyrirtækjum – þ.m.t. opinberum þjónustufyrirtækjum – og (b) fyrirtækjum ríkis og sveitarfélaga, stofnunum og þjónustudeildum þessara aðila.

Um skyldu opinberra þjónustufyrirtækja og þjónustudeilda o.fl. til að innheimta virðisaukaskatt fer skv. 2. og 3. gr. reglugerðarinnar. Þessir aðilar skulu ávallt innheimta virðisaukaskatt af seldri vinnu og þjónustu, einnig þegar þeir selja vinnu og þjónustu sem um ræðir í 12. gr. Þannig er ekki heimilt að sleppa útsköttun á vinnu og þjónustu þjónustudeildar á þeim grundvelli að sama upphæð verði endurgreidd síðar. Til dæmis ber áhaldahúsi sveitarfélags, sem að jafnaði fellur undir 3. gr., að útskatta 12. greinar-þjónustu sem það hefur með höndum og skulduð er út á sveitarsjóð, en síðan fær sveitarsjóðurinn virðisaukaskattinn endurgreiddan á sama hátt og hefði hann keypt þjónustuna af atvinnufyrirtæki.

Verið getur að vinna og þjónusta af því tagi sem um ræðir í 12. gr. sé innt af hendi til eigin nota sveitarfélags eða ríkisstofnunar án þess að slík starfsemi fari fram í sérstöku fyrirtæki eða þjónustudeild, sbr. 3. gr. Í þessum tilvikum kemur ekki til greiðslu virðisaukaskatts af starfseminni. Byggist það á 3. mgr. 4. gr. þar sem segir að ákvæði 4. gr. taki ekki til 12. greinar-þjónustu.

II.

Álitamál hafa komið upp um það atriði hvernig beri að haga endurgreiðslu virðisaukaskatts af ræstingu og sorphreinsun, sbr. l. og 2. tölul. 12. gr. Þannig hefur ekki verið ljóst hvort endurgreiða eigi allan þann virðisaukaskatt sem sveitarfélag eða ríkisstofnun hefur greitt vegna ræstingar eða sorphreinsunar eða hvort hluta eigi virðisaukaskattinn vegna efniskaupa, t.d. vegna kaupa á sorppokum í tengslum við sorphreinsun og hreingerningarefnum vegna ræstingar. Það er álit ríkisskattstjóra að endurgreiða eigi allan virðisaukaskattinn. Ekki þarf að tilgreina vinnuþátt og efnisþátt sérstaklega á sölureikningi.

Sama regla gildir þegar sveitarsjóður eða ríkisstofnun kaupir þjónustuna af þjónustudeild skv. 3. gr.

III.

Í 4. tölul. 12. gr. segir að endurgreiða eigi virðisaukaskatt af björgunarstörfum og öryggisgæslu vegna náttúruhamfara og almannavarna. Að áliti ríkisskattstjóra ber að skýra þetta ákvæði þannig að átt sé við virðisaukaskatt sem sveitarfélag eða ríkisstofnun hefur greitt við kaup á vinnu og þjónustu við björgun fólks og eigna vegna náttúruhamfara, svo og eftirfarandi öryggisgæslu af sama tilefni. Hugtakið náttúruhamfarir þykir bera að skýra með sama hætti og gert er í 4. gr. laga nr. 88/1982 um Viðlagatryggingu Íslands; átt er við eldgos, jarðskjálfta, skriðuföll, snjóflóð og vatnsflóð.

Hugtakið björgunarstörf tekur að áliti ríkisskattstjóra einnig til starfa við hreinsun t.d. gatna og lóða eftir áðurgreindar náttúruhamfarir, enda er með slíkum aðgerðum jafnan forðað frekara tjóni. Hins vegar fellur kostnaður við t.d. viðgerðir fyrir utan endurgreiðsluákvæðið.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.