Dagsetning Tilvísun
16. júlí 1990 113/90
Virðisaukaskattur af sölu notaðra vinnuvéla.
Með bréfi yðar, dags. 18. janúar sl., er óskað upplýsinga um þær reglur sem gilda um virðisaukaskatt af sölu notaðra vinnuvéla. Í bréfinu er vitnað til setningar úr leiðbeiningariti ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt (RSK 11.15) þar sem segir á bls. 23: „Sala eða afhending á vélum, tækjum og öðrum rekstrarfjármunum telst til skattskyldrar veltu hafi virðisaukaskattur vegna öflunar þeirra fengist frádreginn sem innskattur að öllu leyti eða að hluta“. Kemur fram sá skilningur yðar að í þessu felist að sala t.d. vinnuvélar sem keypt var fyrir 2. janúar 1990 beri ekki virðisaukaskatt þar sem söluskattur við kaup hennar fékkst ekki frádreginn sem innskattur.
Tilvitnuð setning, þar sem leitast er við að setja mikilvæga reglu virðisaukaskattslaga fram í einföldu máli, skal nú útskýrð nánar:
Samkvæmt l. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt nær skattskylda samkvæmt lögunum til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. sömu laga á skráður (virðisaukaskattsskyldur) aðili að innheimta og skila virðisaukaskatti af sölu eða afhendingu á vélum, tækjum og öðrum rekstrarfjármunum.
Í 12. gr. er að finna ýmsar undantekningar frá hinum almennu ákvæðum 11. gr. Þar á meðal er regla 3. mgr. 12. gr. þar sem segir að til skattskyldrar veltu teljist ekki sala á vörum sem keyptar hafa verið eða notaðar í þeim tilgangi eingöngu er um ræðir í 3. mgr. 16. gr. Með öðrum orðum: Sala aðfanga, sem eru þess eðlis eða notuð þannig að ekki má telja virðisaukaskatt af innkaupum til innskatts, er undanþegin skattskyldri veltu. Reglan er ítrekuð að því er varðar fólksbifreiðar, sbr. 6. tölul. 3. mgr. 16. gr., í 10. gr. reglugerðar nr. 530/1989, um frádrátt virðisaukaskatts.
Af því sem nú hefur verið gerð grein fyrir er dregin sú almenna regla sem fram kemur í leiðbeiningaritinu: Alltaf þegar innskattur fæst frádreginn ber að útskatta við sölu. Ekki má draga þá ályktun af þessari reglu að það sé skilyrði fyrir útsköttun við sölu eða afhendingu rekstrarfjármunar að aðili hafi áður haft innskattsfrádrátt vegna kaupa hans – þ.e. að eingöngu skuli útskatta þegar innskattur hefur fengist vegna kaupanna. Orðalag leiðbeiningaritsins gefur heldur ekki tilefni til þess skilnings.
Í ýmsum tilvíkum kaupa fyrirtæki rekstrarfjármuni án virðisaukaskatts og ber þeim þó að útskatta þá við sölu. Til dæmis skal ekki greiða virðisaukaskatt við eignayfirfærslu rekstrarfjármuna o.fl. sem verður í tengslum við eigendaskipti á fyrirtæki, sbr. reglu lokamálsgreinar 12. gr. laganna. Selji nýr eigandi einstaka rekstarfjármuni ber honum að innheimta og skila virðisaukaskatti samkvæmt almennum reglum. Sama gildir ef fyrirtæki kaupir rekstrarfjármun af óskattskyldum aðila, svo sem einstaklingi sem ekki hefur rekstur með höndum. Við sölu hans ber skattskyldum aðila að innheimta og skila virðisaukaskatti. Loks má nefna það dæmi sem tekið er í bréfi yðar: Um sl. áramót voru í eigu fyrirtækja ýmsir lausafjármunir sem notaðir voru við rekstur, ýmist keyptir með eða án söluskatts; stundum fékkst söluskattur endurgreiddur í eldra kerfi. Ekkert ákvæði virðisaukaskattslaga undanþiggur þessa muni frá þeirri reglu sem fram kemur í 3. mgr. 11. gr.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.