Dagsetning Tilvísun
6. sept. 1991 114/90
Virðisaukaskattur – rokktónleikar.
Vísað er til erindis yðar til skattstofunnar í Reykjavík, dags. 10. þ.m., um virðisaukaskatt af starfsemi yðar, en erindi þetta framsendi skattstofan ríkisskattstjóra til afgreiðslu. Jafnframt er vísað til viðræðna ríkisskattstjóra við yður um m.a. sama mál.
Í erindinu kemur fram að þér hyggist gangast fyrir rokktónleikum dagana 3.- 5. ágúst nk. í landi H með þátttöku yfir 40 íslenskra hljómsveita og einnar erlendrar. Í erindinu segir:
„Tónleikarnir verða á girtu afmörkuðu svæði í landi H og verður ekki um neitt annað skemmtana- eða samkomuhald að ræða. Hér er um að ræða hreinræktaða rokktónleika, sniðna eftir breska Reading Music festivalinu sem haldið er árlega þriðju helgi í ágúst.
Handan girðingar á afmörkuðu landi hafa heimamenn aðstöðu fyrir salerni og sölu mat- og drykkjarfanga en tónleikarnir verða samtímis á tveimur sviðum, inni og úti. Bensínsala er í hlaði H og sölulúga.
Mjög öflug löggæsla verður á staðnum, læknisþjónusta, símasjálfsalar og annað sem getur talist eðlileg þjónusta við fólk sem hefur eðlilegar þarfir.
Þar sem hér er ráðist í mjög metnaðarfulla og dýra framkvæmd auk þess sem hljómsveitirnar eru ráðnar upp á prósentur af miðaverði auk fastra greiðslna er rétt að taka fram að ekki er gert ráð fyrir að greiða þurfi virðisaukaskatt af þessum tónleikum fremur en öðrum.
Erindinu fylgir uppdráttur af því svæði sem um ræðir.
Til svars erindinu sendist yður hér með afrit af bréfi ríkisskattstjóra til allra skattstjóra, dags. 16. þ.m., um virðisaukaskatt af tónleikum o.fl. Tónleikar, þ.m.t. rokktónleikar, eru undanþegnir virðisaukaskatti skv. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Það er hins vegar skilyrði fyrir undanþágunni að tónleikar séu ekki í tengslum við neitt annað samkomu- eða skemmtanahald. Útisamkomur eru – eins og fram kemur í bréfi ríkisskattstjóra frá 16. þ.m. – taldar virðisaukaskattsskyldar samkomur.
Að áliti ríkisskattstjóra verður með tilliti til allra aðstæðna að líta svo á að fyrirhugaðir tónleikar séu í þeim tengslum við útisamkomuhald að heildarandvirði aðgöngumiðaberi virðisaukaskatt. Allt heildaryfirbragð fyrirhugaðrar samkomu, eins og henni er lýst í erindi yðar, virðist með sama hætti og útihátíða almennt hér á landi. Er þá m.a. litið til þess að samkoman mun standa yfir í þrjá daga um verslunarmannahelgi sem er hefðbundinn tími íslenskra , útihátíða.
Samkvæmt framansögðu virðist aðgangseyrir að fyrirhugaðri samkomu í Húnaveri 3. 5. ágúst nk. ekki falla undir undanþáguákvæði laga um virðisaukaskatt.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.