Dagsetning                       Tilvísun
23. júlí 1990                             116/90

 

Virðisaukaskattur af starfsemi A.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 19. júní 1990, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á skattskyldusviði fyrirtækis, A, sem stofnað er til að reka upplýsinga- og bókunarkerfis fyrir ferðamannaiðnaðinn.

Í greinargerð framkvæmdastjóra fyrirtækisins er starfsemi þess lýst þannig:

A eru upplýsinga- og dreifikerfi og er sjálfstætt starfandi félag í eigu fjögurra evrópskra flugfélaga … Höfuðstöðvar A eru í Madrid á Spáni, en dreifikerfið sjálft er staðsett í Munchen í Þýskalandi. A. er sjálfstætt starfandi félag í eigu F og A og er félagið þjónustuaðili A.

A er upplýsinga- og dreifikerfi fyrir ferðaiðnaðinn. Meiningin er að allir þeir sem nota kerfið, sem eru fyrst og fremst ferðaskrifstofur, hafi aðgang á þá sem vilja koma vöru sinni á framfæri (flugfélög, hótel, bílaleigur, járnbrautir, ferjur o.s.frv.). A er því nokkurs konar milliliður milli þeirra sem bjóða fram þjónustu og þeirra sem bóka/selja þjónustu og gefa út farseðla og ferðatengd skjöl. … Varðandi kostnað við kerfið er meginreglan sú að sá sem leggur fram þjónustu og fær á sig bókun greiðir bókunargjald til A í Madrid. Notendur (ferðaskrifstofur) borga fast afnotagjald/þjónustugjald af hverri útstöð tengdri kerfinu.“

Eftir því sem best verður ráðið af ofangreindri lýsingu er hér um að ræða tölvuþjónustufyrirtæki sem rekur upplýsinga – og bókunarkerfi fyrir ferðaskrifstofur og fleiri aðila í ferðaþjónustu. Félagið virðist hins vegar ekki sjálft hafa með höndum ferðaskrifstofustarfsemi í skilningi 13. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, en það er einaundanþáguákvæði virðisaukaskattslaga sem til álita getur komið í þessu sambandi. Það ákvæði tekur til þeirrar þjónustu að hafa milligöngu um ferðaþjónustu, þ.e. koma viðskiptum milli neytenda og seljenda ferðaþjónustu.

Aðilar sem hafa með höndum þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti á grundvelli 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt verða að greiða virðisaukaskatt við kaup allra aðfanga sinna, annarra en þeirra sem sérstaklega eru undanþegin skatti. Kemur þessi regla skýrt fram í 4. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Aðilar sem hafa með höndum fólksflutninga, gististarfsemi og aðra þjónustu sem fellur undir 3. mgr. 2. gr. verða því að kaupa þjónustu A. með virðisaukaskatti og fá hann ekki endurgreiddan. Bílaleigur og aðrir aðilar sem hafa með höndum skattskylda starfsemi geta hins vegar talið virðisaukaskatt af þessari þjónustu til innskatts eftir venjulegum reglum.

Í þessu sambandi skal vakin athygli á því að samkvæmt reglugerð nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá, skulu þeir sem kaupa tölvuþjónustu, aðra gagnavinnslu og upplýsingamiðlun erlendis frá greiða virðisaukaskatt af andvirði þjónustunnar. Skylda til greiðslu virðisaukaskatts er þó aðeins bundin við óskráða aðila, þ.e. þá sem ekki hafa með höndum skattskylda starfsemi. Að áliti ríkisskattstjóra ber því óskráðum aðilum sem kaupa fyrrnefnda þjónustu af spænska móðurfélaginu að greiða virðisaukaskatt samkvæmt þessum reglum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.