Dagsetning Tilvísun
30. júlí 1990 118/90
Virðisaukaskattur – form sölureikninga.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 29. maí 1990, þar sem fram koma fyrirspurnir varðandi form reikningseyðublaða, sbr. 4. gr. reglug. nr. 501/1989, eins og henni hefur verið breytt með reglug. nr. 156/1990.
Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:
Samkvæmt upphafsákvæði 4. gr. reglug. nr. 501/1989, með áorðnum breytingum, skulu reikningseyðublöð vera fyrirfram tölusett í samfelldri töluröð og með áprentuðu nafni, kennitölu og skráningarnúmeri seljanda. Það er álit ríkisskattstjóra að allt upplag reikningseyðublaða í eigu og umsjón aðila skili bera þessar upplýsingar með sér, þ.e. ekki aðeins útgefnir reikningar, heldur einnig allar birgðir af ónotuðum/óútgefnum reikningum.
Aðili getur uppfyllt þessi skilyrði með því að prenta allt upplagið í einu með framangreindum upplýsingum í prentsmiðju eða í eigin prentara sem tengdur er tölvu. Það er einnig álit ríkisskattstjóra að aðili uppfylli þessi skilyrði með því að stimpla með stimpli nafn seljanda, kennitölu og skráningarnúmer á öll eintök og allt upplag reikningseyðublaða, enda séu eyðublöðin með fyrirfram áprentuðum númerum í samfelldri töluröð. Aðili telst aftur á móti ekki hafa uppfyllt framangreind skilyrði með því að handskrifa eða vélrita nefndar upplýsingar á reikningseyðublöðin.
Þess er ekki krafist að keyptur sé lágmarksfjöldi „áprentaðra“ reikninga, en gæta skal þess að hefja ekki aftur sömu númeraröð á sama reikningsári.
Engar skorður eru við því hvaða tækni er notuð við sjálfa prentunina, svo fremi sem framangreind skilyrði eru uppfyllt.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.