Dagsetning                       Tilvísun
2. ágúst 1990                            122/90

 

Virðisaukaskattur – S.

Vísað er til erindis yðar, dags. 26. júlí sl., um virðisaukaskatt vegna mótsins S sem haldið verður um komandi verslunarmannahelgi. Í erindinu segir m.a. að S sé

„fræðslu og upplýsingamót um nýjar stefnur og strauma í andlegum málum. Þar sem hér er um hreinan menningarviðburð að ræða, óskum við eftir að reglugerð vegna virðisaukaskatts um námskeið, kennslu og aðra menningarstarfsemi gildi fyrir S. … S er sjálfseignarstofnun og tilgangur félagsins er að stuðla að tengslum áhugafólks um mannrækt með mannræktarmóti við rætur S einu sinni á ári.“

Þá er þess getið að allt starf við mótið sé unnið í sjálfboðavinnu.

Samkvæmt auglýsingu sem fylgir erindinu virðist mót þetta opið almenningi gegn greiðslu aðgangseyris. Á dagskrá eru m.a. hugleiðslur, pallborðsumræður um N, kristallaheilum, lestur í M, lestur í Tarot spil og Rúnir, umræða um mengunarvalda í umhverfinu, kvöldvökur með hugleiðslum, varðeldi og fjöldasöng, svo og námskeið í S – aðferð indíána til að efla tenginguna við hinn innri anda og hið dulda í lífinu.

Til svars erindinu skal tekið fram að innheimta skal og skila virðisaukaskatti af aðgangseyri að útisamkomum sem haldnar eru í atvinnuskyni. Þau námskeið sem tilgreind eru í dagskrá falla að áliti ríkisskattstjóra ekki undir undanþáguákvæði 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, en það ákvæði er skýrt þannig að það taki aðeins til kennslustarfsemi sem er sambærileg starfsemi almenna skólakerfisins í landinu. Tómstundafræðsla o.þ.h. er hins vegar talin skattskyld starfsemi.

Þar sem aðgangur er seldur almenningi að mótinu S virðist um atvinnustarfsemi að ræða. Að áliti ríkisskattsjóra ber samkvæmt framansögu að innheimta og skila virðisaukaskatti af aðgangseyri að móti þessu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.