Dagsetning Tilvísun
17. ágúst 1990 127/90
Form reikningseyðublaða.
Með bréfi yðar, dags. 20. des. 1989, er þess farið á leit að umbjóðanda yðar verði leyft að nota reikningseyðublað í því formi sem fylgdi bréfinu.
Form eyðublaðsins virðist uppfylla skilyrði 4. gr. reglug. nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Tekið skal fram að reikningar skulu vera a.m.k. í þríriti.
Samkvæmt 5. tölul. 4. gr. áðurgreindrar reglugerðar þurfa að koma fram á reikningi upplýsingar um það hvort virðisaukaskattur sé innifalinn í heildarfjárhæð. Ennfremur skal fjárhæð virðisaukaskatts koma sérstaklega fram við sölu til skattskylds aðila.
Útfylling reikningseyðublaðs umbjóðanda yðar er að því leyti óeðlileg að þar eru einingaverð efnis tilgreint með virðisaukaskatti, en einingaverð vinnuliða og ýmiss kostnaður tilgreindur án virðisaukaskatts. Skattur vegna vegna vinnuliða o.fl. er síðan tilgreindur sérstaklega fyrir samlagningu. Loks er tilgreint sérstaklega hver fjárhæð virðisaukaskatts er af heildarfjárhæð. Þessi tvítalning á fjárhæð virðisaukaskatts gæti valdið misskilningi og er þess vegna ekki æskileg.
Eðlilegast er að öll einingaverð séu annaðhvort tilgreind með eða án virðisaukaskatts á sölureikningum og virðisaukaskattur síðan sérgreindur.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.