Dagsetning Tilvísun
17. ágúst 1990 128/90
Virðisaukaskattur – myndskreytingar o.fl.
Með bréfi yðar, dags. 2. apríl sl., óskið þér álits ríkisskattstjóra á því hvernig túlka beri 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, en samkvæmt þessu ákvæði er starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi undanþegin virðisaukaskatti.
Til svars erindinu sendist yður hér með afrit af bréfi ríkisskattstjóra um sama efni, dags. 8. maí sl. Eins og þar kemur fram er bein sala listamanna á eigin listaverkum, sem falla í tiltekin tollskrárnúmer, undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 2. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt, og sala þeirra á birtingarrétti eða notkunarrétti þessara listaverka er undanþegin skv. 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna.
Verður ekki annað ráðið af bréfi yðar en að öll sú starfsemi sem þar er sérstaklega vikið að falli undir þessi undanþáguákvæði, enda virðist þér ekki semja texta eða teikna myndir sérstaklega til notkunar í auglýsingum eða öðrum viðskiptum.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.
Afrit:
Umferðarskólinn Ungir vegfarendur.