Dagsetning                       Tilvísun
24. ágúst 1990                            130/90

 

Virðisaukaskattur af sölu bóka.

Eins og kunnugt er kemur ákvæði 10. tölul. l. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt til framkvæmda l. september nk. Frá og með þeim degi verður sala bóka á íslenskri tungu undanþegin skattskyldri veltu (ber núllskatt).

Af þessu tilefni vill ríkisskattstjóri taka fram eftirfarandi:

A. Almennt um undanþáguákvæðið.

Undanþágan hefur þá þýðingu að skráðir aðilar innheimta ekki virðisaukaskatt (útskatt) af sölu eða afhendingu bóka á íslensku, en hafa samt sem áður rétt til endurgreiðslu innskatts af aðföngum sem varða söluna.

Undanþágan tekur bæði til sölu í heildsölu og smásölu, þ.e. frá útgefanda til bóksala og frá bóksala til endanlegs neytanda.

Undanþágan tekur ekki til sölu á prentþjónustu frá prentsmiðju. Virðisaukaskattur vegna prentunar bókar er hins vegar innskattur hjá skráðum bókaútgefanda.

B. Rit sem ákvæðið tekur til.

  1. Almennt.

Undanþáguákvæðið tekur aðeins til sölu bóka á íslenskri tungu, en ekki skiptir máli hvort þær eru frumsamdar á íslensku eða þýddar úr erlendum málum. Ekki skiptir heldur máli hvort útgefandi er íslenskur aðili eða erlendur.

Af lögskýringargögnum má ráða að ástæða þess að löggjafinn takmarkar undanþáguna við bækur á íslensku sé viðleitni til þess að styrkja sérstaklega íslenska tungu og þann menningararf Íslendinga sem birtist á bók. Verður að hafa þennan tilgang undanþáguákvæðisins í huga við skýringu þess.

  1. Bækur og prentvarningur sem undanþágan nær ekki til.

Undanþáguákvæðið nær ekki til sölu á eftirfarandi bókum og prentvarningi, hvort sem höfundur og/eða útgefandi er íslenskur eða erlendur:

  1. Bókum á erlendum tungumálum. Undanþáguákvæðið nær þó til kennslubóka í erlendum tungumálum, enda séu útskýringar og leiðbeiningar á íslensku.
  1. Bókum án texta í meginmáli. Undanþáguákvæðið nær þó til myndabóka, t.d. barnabóka eða listaverkabóka, þótt texti sé ekki stórvægilegur, og til nótnabóka, enda sé um að ræða íslenskan texta með nótunum.
  1. Dagatölum, dagbókum og almanökum. Undanþáguákvæðið nær þó til þess þegar dagatal er minni hluti víðtækrar handbókar.
  1. Bókum og ritum til útfyllingar, t.d. litabækur, stílabækur og reikningshefti.
  1. Ritum þar sem meginefni er skrár eða listar en ekki samfelldur texti, svo sem skrár yfir rétthafa síma, heimilisfangaskrár, fyrirtækjaskrár, vinningaskrár, verðskrár, leiðabækur um áætlunarferðir, skrár yfir sýningarhluti, fasteignir, rekstrarfjármuni, vöru, birgðir og annað lausafé. Þó tekur undanþáguákvæðið til orðabóka, bæði íslensk-íslenskra og tvítyngdra orðabóka, þar sem íslenska er annað tungumálið.
  1. Uppdráttum og kortum, þó ekki í bókarformi (landabréfabækur).
  1. Ýmsu smáprenti, svo sem eyðublöðum, auglýsinga- og kynningarbæklingum, og möppum (folderar).
  1. Prentvarningi sem ásamt annarri vöru myndar eina vöruheild, t.d. leiðbeiningarit með tæki.

C. Um tekjuskráningu, bókhald og uppgjör virðisaukaskatts.

  1. Tekjuskráning.

Skráðir aðilar, sem selja undanþegnar bækur og tímarit fyrir eigin reikning eða annarra, skulu á fullnægjandi hátt sanna að hver einstök sala sé undanþegin skattskyldri veltu (beri núllskatt).

a) Smásalar, sem auk bóka og tímarita hafa til sölu annars konar vöru, skulu til sönnunar sölu með núllskatti skrá hverja einstaka sölu, jafnt staðgreiðslusölu sem lánssölu, í sérstaka sjóðvél eða í sjóðvél með tveimur aðskildum teljurum. Skal þá sala með núllskatti skráð í annan teljarann en sala með virðisaukaskatti skal skráð í hinn.

b) Heildsalar, sem skulu gefa út sölureikninga við sölu, skulu færa sölu með núllskatti á sérstaka sölureikninga. Óheimilt er að færa á sama sölureikning bæði sölu með virðisaukaskatti og sölu vöru sem ber núllskatt. Jafnframt er óheimilt að gefa á einhvern hátt til kynna á sölureikningi að virðisaukaskattur sé innifalinn í reikningsfjárhæð þegar um er að ræða sölu vöru með núllskatti.

  1. Bókhald.

Sala undanþeginna bóka, tímarita og dagblaða skal færð á sérstaka teknareikninga í bókhaldi. Jafnframt skal færa kaup þessara vara til endursölu á sérstaka gjaldareikninga í bókhaldi.

Við vörutalningu skal færa undanþegnar bækur, tímarit og blöð í sérstakar vörutalningarbækur.

Minnt skal á að skattskyldum aðilum er skylt að haga bókhaldi sínu og vörslu bókhaldsgagna þannig að hann geti að kröfu skattyfirvalda gefið upplýsingar um innkaup sín á skattskyldum vörum, þ.m.t. vörum sem bera núllskatt, frá einsökum skattskyldum aðilum. Jafnframt skulu skattskyldir aðilar geta gefið skattyfirvöldum upplýsingar um sölu sína á skattskyldum vörum, þ.m.t. vörum með núllskatti, til einstakra skattskyldra aðila.

  1. Uppgjör virðisaukaskatts.

Sala sem undanþegin er skattskyldri veltu (sala með núllskatti) færist í reit B á virðisaukaskattsskýrslu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.