Dagsetning                       Tilvísun
28. sep. 1990                             139/90

 

Virðisaukaskattur – flutningastarfsemi.

Með bréfi yðar, dags. 8. ágúst 1990, óskið þér eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort starfsemi fyrirtækisins sé virðisaukaskattsskyld. Starfseminni er lýst þannig að hún sé að meginstofni útleiga á skipum, nánar tiltekið:

  1. Útleiga dráttarbáts sem annast drátt á skipum, björgun og þjónustu fyrir kafara.
  1. Útleiga á flutningaskipi. (a) Flutningur á baujum vegna viðgerða. (b) Flutningur á bortækjum og öðrum búnaði vegna borunar og sprenginga neðansjávar. (c) Flutningur á stáli (stálþili) milli hafna og innan hafnarsvæðis. (d) Flutningur á grjóti til efnisvinnslu milli staða innanlands. (e) Flutningur á grúsarefni milli hafna innanlands og innan hafnarsvæðis.

Eins og starfseminni er lýst er ekki um að ræða útleigu á skipum, heldur vöruflutningaþjónustu. Vöruflutningar innanlands er skattskyld starfsemi samkvæmt almennum ákvæðum laga um virðisaukaskatt (24,5% vsk. ). Þá er þjónusta af því tagi sem um ræðir í lið 1, þ.e. dráttur á skipum og björgun skipa, sem innt er af hendi fyrir millilandafar og á reikning þess, undanþegin skattskyldri veltu (ber núllskatt), sbr. 5. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt. Vöruflutningar milli landa eru undanþegnir skattskyldri veltu, sbr. 2. tölul. sömu málsgreinar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.