Dagsetning Tilvísun
11. okt. 1990 144/90
Virðisaukaskattur – herbergisbarir á hótelum.
Með bréfi yðar, dags. 19. okt. 1989, er óskað upplýsinga um hvernig fara skuli með virðisaukaskatt af starfsemi fyrirtækis yðar. Í bréfinu kemur fram að fyrirtækið er umboðsaðili dansks fyrirtækis sem leigir hótelum herbergisbari (minibar), þ.e. kælda skápa fyrir áfenga og óáfenga drykki, sælgæti o.fl., til notkunar fyrir gesti á herbergjum. Íslensk hótel greiða leiguna beint til danska fyrirtækisins samkvæmt reikningum frá því, en fyrirtæki yðar virðist hafa með höndum ýmsa þjónustu við hótelin fyrir hönd danska fyrirtækisins.
Til svars erindinu skal tekið fram að leiga á lausafjármunum, svo sem herbergisbörum þeim sem fyrirspurnin varðar, er skattskyld þjónusta samkvæmt ákvæðum laga um virðisaukaskatt.
Þeir sem inna af hendi skattskylda þjónustu hér á landi í atvinnuskyni skulu tilkynna um starfsemi sína til skráningar hjá skattstjóra. Þetta gildir einnig um erlend fyrirtæki. Hafi erlent fyrirtæki, sem hefur með höndum skattskylda starfsemi hér á landi, ekki starfsstöð hérlendis (útibú eða dótturfyrirtæki) hvílir skráningar- og skattskyldan á umboðsmanni þess eða öðrum innlendum aðila sem er í fyrirsvari fyrir það, sbr. 6. tölul. l. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt.
Erlent fyrirtæki sem selur lausafjármun á leigu til hérlends aðila, einnig þegar um fjármögnunarleigu er að ræða, er skráningar- og skattskylt hérlendis samkvæmt framansögðu ef það flytur viðkomandi leigumun sjálft inn til landsins. Þegar þannig hagar er talið að leigustarfsemi fyrirtækisins sé innt af hendi hérlendis.
Hins vegar er hið erlenda fyrirtæki ekki skráningarskylt ef leigutaki flytur leigumuninn inn í sínu nafni. Sama gildir ef skattskyld sala hins erlenda fyrirtækis nemur lægri fjárhæð en 155.800 kr. á ári. Í báðum þessum tilvikum fer um greiðslu virðisaukaskatts samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 194/1990 um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá.
Aðili, sem skráður er samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, getur talið til innskatts m.a. þann virðisaukaskatt sem greiddur er í tolli við innflutning umræddra herbergisbara, svo og virðisaukaskatt vegna prentunar eyðublaða o.s.frv. í íslenskum prentsmiðjum. Söluskattur sem fyrirtækið hefur greitt vegna innflutnings herbergisbara fram til síðustu áramóta fæst ekki frádreginn eða endurgreiddur. Leiga þeirra er að sjálfsögðu skattskyld með sama hætti og herbergisbara sem fluttir eru inn eftir að lög um virðisaukaskatt komu til framkvæmda.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.