Dagsetning Tilvísun
19. okt. 1990 151/90
Virðisaukaskattur – aðgangseyrir að fjölleikahúsi.
Með bréfi yðar, dags. 20. september 1990, er leitað álits ríkisskattstjóra á því hvort skila skuli virðisaukaskatti af aðgangseyri að sýningum fjölleikahúss.
Af þessu tilefni skal tekið fram að skattskylda samkvæmt lögum um virðisaukaskatt nær skv. 2. mgr. 2. gr. laganna til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega undanþegin skattinum. Að áliti ríkisskattstjóra verður ekki talið að sýningar fjölleikahúss falli undir neitt undanþáguákvæða laganna. Tekið skal fram að ríkisskattstjóri túlkar hugtakið „leiksýning“ í 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna þannig að það taki eingöngu til flutnings leikverks.í hinni hefðbundnu merkingu þess orðs.
Samkvæmt framansögðu ber að greiða virðisaukaskatt af aðgangseyri að sýningum þeim sem um ræðir í bréfi yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.