Dagsetning                       Tilvísun
6. nóv. 1990                            166/90

 

Virðisaukaskattur af hagnýtingu einkaleyfis.

Með bréfi yðar, dags. 13. september sl., er þeirri fyrirspurn varpað til ríkisskattstjóra hvort eiganda einkaleyfis beri að innheimta virðisaukaskatt af sölu réttar til að framleiða vöru samkvæmt einkaleyfinu.

Til svars erindinu skal tekið fram að skattskylda samkvæmt lögum um virðisaukaskatt nær til hvers konar vöru og verðmæta, svo og vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, nema hún sé undanþegin skv. 3. gr. 2. gr. laganna. Framsal óefnislegra réttinda er meðal þeirra viðskipta sem skattskyld eru talin samkvæmt þessum meginreglum. Gildir það að áliti ríkisskattstjóra m.a. um sölu á framleiðslurétti, hvort sem greiðsla er í formi greiðslu í eitt skipti fyrir öll eða viðvarandi greiðslna, sem t.d. eru ákveðnar eftir verðmæti eða magni framleiddra eða seldra eininga.

Vakin skal athygli á því að skv. 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt eru þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 155.800 kr. á ári undanþegnir skattskyldri veltu. Fjárhæð þessi breytist 1. janúar ár hvert til samræmis við byggingarvísitölu.

Viðvarandi greiðslur skal telja til skattskyldrar veltu á því uppgjörstímabili þegar þær eru mótteknar. Byggist greiðslurnar á skriflegum samningi er nægilegt að móttakandi greiðslu (seljandi framleiðsluréttar) gefi út kvittun fyrir hinum mótteknu fjárhæðum. Kvittun skal fullnægja form- og efniskröfum 7. gr., sbr. 4. og 5. gr. reglugerðar um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.