Dagsetning                       Tilvísun
20. des. 1990                            184/90

 

Innskattur af rekstrarkostnaði viðgerðardeildar sérleyfishafa.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 25. september 1990, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort virðisaukaskattur af rekstrarkostnaði viðhalds- og viðgerðardeildar fyrirtækis, er hefur sem aðalstarfsemi sérleyfisbílaakstur, sé frádráttarbær sem innskattur á móti þeim virðisaukaskatti sem deildinni ber að reikna sér af eigin þjónustu við aðaldeild (sérleyfisbílaakstur) félagsins, sbr. reglug. nr. 562/1989.

Til svars erindinu skal tekið fram að í 1. tölul. l. mgr. 3. gr. nefndrar reglugerðar nr. 562/1989 segir að fari starfsemi fram í sérstakri þjónustudeild skuli miða skattverð við almennt gangverð í sams konar viðskiptum. Við skil á skatti í ríkissjóð skal innskattur af aðföngum dreginn frá útskatti samkvæmt almennum reglum.

Til þess að haga megi skattskilum viðhalds- og viðgerðardeildar á þann veg sem greinir í l. tölul. l. mgr. 3. gr. verður meðferð bókhalds fyrirtækisins að vera með þeim hætti að tekjur og gjöld deildarinnar séu greind frá öðrum þáttum rekstrarins. Samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar er gerð sú krafa að skráningu á framleiðslu og afhendingu vara og veittri þjónustu skuli haga með fyrirfram skipulögðum hætti, svo sem með skráningu á vöruúttekt, vinnustundum og öðrum upplýsingum sem geta verið grundvöllur að uppgjöri á virðisaukaskatti.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.

 

Hjál.. Bréf RSK 27/90.