Dagsetning Tilvísun
20. des. 1990 187/90
Virðisaukaskattur – meðferðarstöð.
Með bréfi, dags. 20. september sl., óskið þér álits ríkisskattstjóra á því hvort starfsemi félags sem rekur meðferðarstöð fyrir drykkjusjúklinga falli undir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga eða reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila o.fl.
Fram kemur í bréfinu að viðskiptavinir félagsins eru eingöngu erlendir aðilar, aðallega bæjarfélög í Svíþjóð sem senda hingað til lands sjúklinga til læknismeðferðar vegna drykkjusýki.
Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á að starfsemi félagsins teljist þjónusta sem nýtt sé erlendis í skilningi 1. gr. reglugerðar nr. 194/1990 eða veitt erlendis í skilningi 1. tölul. l. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt, þótt sjúklingar komi erlendis frá á stöðina og fari síðan aftur erlendis eftir dvöl á meðferðarstöðinni. Þjónustan er veitt hér á landi og virðisaukaskattslög byggja á þeirri meginreglu að þjónusta sé nýtt þar sem hún er veitt.
Að áliti ríkisskattstjóra verður að telja að starfsemi félagsins falli undir l. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt og því undanþegin virðisaukaskatti. Samkvæmt þessu ber ekki að greiða virðisaukaskatt af endurgjaldi því sem sjúkrastöðin áskilur sér fyrir dvöl sjúklinga, aðhlynningu ýmiss konar og þjónustu sem getur talist eðlilegur hluti af starfsemi þess sem sjúkrastöðvar. Má í þessu sambandi nefna rekstur mötuneytis fyrir sjúklinga. Á hinn bóginn hefur félagið ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af keyptum aðföngum til starfseminnar, sbr. 4. mgr. sömu greinar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.