Dagsetning                       Tilvísun
20. des. 1990                             190/90

 

Virðisaukaskattur af starfsemi fjallskilasjóðs.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 16. nóvember sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts vegna starfsemi fjallskilasjóðs.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

Samkvæmt 11. tölul. 6. mgr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 eru fjallskil talin meðal þeirra verkefna sem sveitarfélög skulu annast. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., annast hreppsnefndir eða bæjarstjórnir stjórn og framkvæmd fjallskilamála, hver í sínu umdæmi.

Fram kemur í ýmsum ákvæðum laga nr. 6/1986, m.a. 31. gr. og 46. gr., að kostnaður vegna þeirra laga greiðist eftir atvikum annað hvort af fjallskilasjóði eða sveitarsjóði. Meginregla laganna er sú að fjallskilakostnaði er jafnað niður á fjallskilaskylda aðila í hlutfalli við tölu fjallskilaskylds búpenings. Þó er heimilt eftir nánari reglum að leggja hluta fjallskilakostnaðar á landverð jarða, þ.e. á aðila sem ekki nota afrétt til upprekstrar. Dæmi um notkun þessarar heimildar er að finna í 12. gr. fjallskilasamþykktar V nr. 392/1975, með síðari breytingum, en þar er hreppsnefnd heimilað að leggja allt að þriðjungi áætlaðs kostnaðar fjallskilasjóðs á landverð allra jarða í hreppnum, þ.m.t. eyðijarða, að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda, miðað við gildandi fasteignamat á hverjum tíma.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er það álit ríkisskattstjóra að starfsemi fjallskilasjóðs sé opinber starfsemi, þ.e. þáttur í almennri starfsemi sveitarsjóðs. Starfsemi fjallskilasjóðs verður ekki talin í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Því telur ríkisskattstjóri að 4. tölul. 3. gr. laga um virðisaukaskatt taki ekki til starfseminnar. Af þessu leiðir að fjallskilasjóður innheimtir ekki virðisaukaskatt af andvirði veittrar þjónustu, en getur ekki fengið virðisaukaskatt endurgreiddan vegna kaupa á vörum eða þjónustu vegna starfseminnar umfram það sem kveðið er á um í III. kafla reglugerðar nr. 248/1990.

Vegna lokaorða bréfs yðar skal tekið fram að bændur geta talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem þeir greiða m.a. vegna framkvæmda sinna við girðingar í heimalöndum eða afréttum. Einstakir bændur geta ekki talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem óskráður aðili, svo sem sveitarsjóður eða fjallskilasjóður, kann að greiða vegna sameiginlegra þarfa íbúa.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.