Dagsetning Tilvísun
20. des. 1990 193/90
Virðisaukaskattur – greinaskrif í dagblað.
Með bréfi yðar, dags. 5. febrúar 1990, er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort starfsemi yðar sé skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Í bréfinu kemur fram að ríkisstofnun hafi samið við yður um að annast skrif eða umsjón tiltekins greinaflokks í dagblað. Síðan segir:
„Ég hef síðan unnið þetta verk þannig að ég hef upp á athyglisverðum rannsóknaverkefnum; hef samband við viðkomandi vísindamenn og fæ þá til samstarfs við mig um greinaskrifin. Ég legg þeim línurnar um ytra form greinanna og hvernig málið skuli sett fram, fæ þá síðan til að skrifa uppkast að greinunum, fæ uppkastið því næst í hendur og breyti því ætíð verulega. Eftir að greinarnar hafa gengið nokkrum sinnum á milli og báðir aðilar eru orðnir ásáttir um þær eru greinarnar sendar [dagblaðinu]. – Sérfræðingarnir leggja fyrst og fremst fræðilegu þekkinguna í greinarnar meðan það er mitt hlutverk að tryggja það að greinarnar séu hæfilega langar, skilmerkilega og aðgengilega settar fram og skrifaðar á einföldu og skýru máli. – Þegar greinar birtast eru sérfræðingarnir titlaðir höfundar en ég umsjónarmaður. Ég vil þó undirstrika að ég á verulegan þátt í samningu greinanna.“
Ennfremur segir í bréfinu að titlaður höfundur fái ritlaun frá dagblaðinu, en ríkisstofnunin greiðir yður þóknun fyrir umsjón.
Eins og fram kemur í bréfi yðar er starfsemi rithöfunda undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Sú starfsemi að rita grein í blað eða tímarit gegn gjaldi fellur hér undir.
Að mati ríkisskattstjóra er vinna yðar við umrædd greinaskrif, eins og henni er lýst, undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt greindu undanþáguákvæði, enda virðist þáttur yðar í samningu greinanna þess eðlis að henni megi jafna við ritstörf höfundar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.