Dagsetning                       Tilvísun
14. jan. 1991                             196/91

 

Virðisaukaskattur af „kostun“.

Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri vekja athygli skattstjóra á því að hvers konar auglýsinga- og kynningarþjónusta er skattskyld samkvæmt meginreglum laga um virðisaukaskatt. Skattskyldan tekur meðal annars til svonefndra kostunarsamninga þar sem fyrirtæki (kostunaraðili) lætur fé renna til aðila (kostunarþega) sem aftur á móti lætur af hendi endurgjald af einhverju tagi, oftast auglýsingu eða kynningu á kostunaraðila eða söluvöru hans. Styrktarsamningar af þessu tagi eru meðal annars algengir við þáttagerð í sjónvarpi og aðra kvikmyndagerð.

Endurgjald kostunarþega getur t.d. verið með þessum hætti:

–    Kostunaraðili fær rétt til þess að láta koma fram í auglýsingum sínum og öðrum tilkynningum, t.d. á bréfsefni, að hann styðji málefni eða félag (kostunarþega).

–    Kostunarþegi auglýsir kostunaraðila, beint eða óbeint. Dæmi: Kvikmyndagerðarfélag eða sjónvarpsstöð getur nafns eða vörumerkis kostunaraðila fyrir eða eftir sýningu myndar eða þáttar eða þessi atriði koma fram í mynd. Kvikmynd eða sjónvarpsþáttur getur einnig falið í sér beina eða óbeina auglýsingu á kostunaraðila eða söluvöru hans, t.d. með umfjöllun um söluvöru.

Samkvæmt framansögðu er kostunarþega aðeins skylt að greiða virðisaukaskatt af mótteknu kostunarfé (telja það til skattskyldrar veltu) ef hann lætur af hendi endurgjald af einhverju tagi. Sé ekki um neitt endurgjald að ræða á sér ekki stað skattskyld afhending á vöru eða þjónustu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.