Dagsetning                       Tilvísun
14. jan. 1991                             198/91

 

Virðisaukaskattur – þjónusta tryggingastærðfræðings

Vísað er til bréfs yðar, dags. 27. mars 1990, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort eftirtalin þjónusta tryggingarstærðfræðings sé skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt:

  1. Tryggingafræðistörf fyrir líftryggingafélög.
  2. Ýmsir útreikningar fyrir tryggingafélög, t.d. á bótasjóðum og lífeyrisskuldbindingum, og fyrir fleiri aðila. Úttekt á lífeyrissjóðum.
  3. Útreikningar á örorkutjónum.
  4. Mat fiskiskipa yfir 100 lestir vegna ákvörðunar um vátryggingarfjárhæð.

Að áliti ríkisskattstjóra ber að skýra undanþáguákvæði 9. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt þannig að það nái ekki einungis til seldrar þjónustu vátryggingafélaga, heldur taki það einnig til þess þegar vátryggingafélög kaupa að þjónustu sem telja verður eðlilegan og nauðsynlegan þátt í vátryggingarstarfsemi þeirra og almennt er innt af hendi til eigin nota innan vátryggingafélaganna sjálfra. Ríkisskattstjóri hefur þannig talið að mats- og virðingarstörf sem lögmenn, verkfræðingar og aðrir sérfræðingar vinna fyrir vátryggingafélög séu undanþegin virðisaukaskatti þegar um er að ræða mat á tjóni vegna ákvörðunar bótafjárhæðar eða ákvörðunar tryggingarfjárhæðar.

Í þessu sambandi skal tekið fram að almennt kaupa vátryggingafélög aðföng til starfsemi sinnar, þ.m.t. þjónustu sérfræðinga, með virðisaukaskatti. Sjá um þetta 4. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Til dæmis um þjónustu sem ekki verður felld undir undanþáguákvæði laganna má nefna þjónustu sérfræðinga sem vátryggingafélag kann að kaupa til að leiða í ljós atvik sem máli skipta um skaðabótaskyldu. Sama gildir um þjónustu lögmanna utan sem innan réttar (álitsgerðir, málflutningsstörf, innheimtustörf o.fl.) þótt sakarefni varði skaðabótamál, hvort sem ágreiningur er um skaðabótaskyldu eða ákvörðun bótafjárhæðar.

Verður nú vikið að einstökum atriðum í bréfi yðar:

Um liði 1 og 2: Ekki verður séð að þessi þjónustu falli undir neitt undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Að áliti ríkisskattstjóra er hér um virðisaukaskattsskylda þjónustu að ræða, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.

Um lið 3: Hér mun átt við útreikning tryggingastærðfræðings, byggðan á örorkumati læknis, á áætluðu fjártjóni slasaðs manns vegna örorku. Í bréfi yðar segir að oftast biðji lögmenn um þessa útreikninga og greiði þóknun fyrir þá. Þeir krefja síðan tryggingafélögin um þennan kostnað. Stundum reiknar tryggingastærðfræðingur örorkutjón beint fyrir tryggingafélög.

Að áliti ríkisskattstjóra verður með vísan til meginreglu 2. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga og almennra athugasemda hér að framan að telja þennan þátt í starfsemi tryggingastærðfræðings skattskyldan í heild sinni.

Um 4. lið: Um er að ræða verktakastörf fyrir F, en hún starfar á vegum L og tryggingafélaganna. L og Í greiða tryggingastærðfræðingi mánaðarlega þóknun fyrir. Auk þess krefur hann skipseigendur um greiðslu fyrir möt einstakra skipa (ný skip og endurbætur eldri skipa).

Matsstörf þessi eru til ákvörðunar vátryggingarfjárhæðar í einstökum tilvikum. Að áliti ríkisskattstjóra má líta svo á að þau séu unnin í þágu vátryggingafélaga þótt þjónustan sé að hluta greidd af tryggingatökum (útgerðarmönnum). Þjónustan er að áliti ríkisskattstjóra undanþegin virðisaukaskatti skv. 9. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Sama gildir um þjónustu undirverktaka við matið.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.