Dagsetning                       Tilvísun
14. jan. 1991                             203/91

 

Söluskráning bensínstöðva o.fl.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 23. október 1990. Í bréfinu er í fyrsta lagi spurt hvaða kröfur skattyfirvöld geri til afgreiðslukassa. Í öðru lagi er spurt um þær kröfur sem skattyfirvöld geri til bensín- og olíusjálfsala sem notaðir eru við sjálfsafgreiðslu þegar bensínstöð er lokað.

Almennt um sjóðvélar.

Í reglugerð nr. 531/1989, um sjóðvélar, koma fram þær kröfur sem gerðar eru til útbúnaðs sjóðvéla. Í 8. gr. reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 156/1990, kemur fram að sjóðvélaskyldir aðilar skulu skrá sérhverja afhendingu eða sölu á vörum, verðmætum eða þjónustu í sjóðvél jafnskjótt og salan eða afhendingin fer fram. Ekki skiptir máli hvort um staðgreiðslusölu eða afborgunar- eða lánsviðskipti er að ræða.

Um bensín- og olíusjálfsala.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvernig þessir sjálfsalar eru úr garði gerðir með tilliti til tekjuskráningar eða útgáfu reikninga. Verður því að svara spurningu yðar almennt.

Bensínstöðvar eru sjóðvélaskyldir aðilar, sbr. reglugerð nr. 501/1989, og verður því að gera sömu kröfur um form og búnað sjálfsala, sem olíufélög hafa sett upp til sjálfsafgreiðslu, og gerðar eru til sjóðvéla almennt. Þannig skulu þeir vera búnir innri og ytri strimli, svo og uppsöfnunar- og dagsöluteljara. Varðveita skal innri strimil órofinn, ytri strimill skal afhentur kaupanda o.s.frv.

Falli sjálfsalar þeir sem um ræðir ekki að reglum um sjóðvélar getur rekstraraðili sótt um að mega nota annað söluskráningarkerfi sem teljist jafnöruggt, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 501/1989.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.