Dagsetning                       Tilvísun
14. jan. 1991                            204/91

 

Innskattsfrádráttur vegna bifreiða.

Með bréfi yðar, dags. 11. september 1990, er óskað upplýsinga um hvort skráðir aðilar samkvæmt lögum nr. 50/1988 fái endurgreiddan virðisaukaskatt vegna öflunar eða reksturs bifreiða af tegundinni Iveco Daily 4X4. Um er að ræða þrjár útfærslur:

a) Skráð fyrir átta farþega og ökumann.
b) Skráð fyrir níu farþega og ökumann.
c) Sendibifreið með lokuðu vörurými, skráð fyrir tvo farþega og ökumann.

Allar tegundirnar fást 3,5 eða 4 tonn í heildarþyngd.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

Um fólksbifreiðir. Óheimilt er að telja sem innskatt virðisaukaskatt af öflun fólksbifreiðar fyrir níu menn eða færri (með bílstjóra), þótt hún sé notuð við skattskylda starfsemi. Kemur regla þessi fram í 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, eins og því ákvæði var breytt með lögum nr. 106/1990. Fram að því að lög nr. 106/1990 tóku gildi, sem var l. janúar 1991, tók regla þessi til fólksbifreiða fyrir færri en níu menn (með bílstjóra).

Kaupanda fólksbifreiðar, sem hefur með höndum sölu eða leigu slíkra bifreiða, er þó heimilt að telja skatt af öflun hennar sem innskatt.

Tekið skal fram að bifreið sem skráð er fyrir átta farþega, auk ökumanns, telst fólksbifreið í þessu sambandi þótt leyfð heildarþyngd hennar sé yfir 3500 kg.

Um sendibifreiðir með heildarbunga 3.500 kg eða minna. Skráðum aðila er óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna öflunar eða leigu sendibifreiðar með leyfilegum heildarþunga 3.500 kg eða minna nema hann noti bifreiðina eingöngu vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi sinnar. Sjá um þetta reglugerð nr. 530/1989, um frádrátt virðisaukaskatts.

Um vörubifreiðir með heildarþunga yfir 3.500 kg. Önnur regla gildir um frádrátt virðisaukaskatts vegna öflunar vöru- eða sendibifreiðar með leyfilegum heildarþunga yfir 3.500 kg sem skattaðili notar bæði vegna skattskyldrar starfsemi og til einkanota eða vegna starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskatti. Í þessum tilvikum fæst virðisaukaskattur af öflun frádreginn að hluta sem innskattur. Sjá nánari skýringar í leiðbeiningariti ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt (RSK 11.15), bls. 33.

Um hópbifreiðar. Um hópbifreiðar (bifreiðar sem aðallega eru ætlaðar til fólksflutninga og skráðar fyrir 9 farþega eða fleiri) gildir sama regla og um vöru- og sendibifreiðir með heildarþunga yfir 3.500 kg.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.