Dagsetning                       Tilvísun
21. jan. 1991                             215/91

 

Virðisaukaskattur af námskeiðum.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 20. febrúar sl., um virðisaukaskatt af námskeiðum sem sambandið stendur fyrir. Starfseminni er þannig lýst að sambandið

„… gengst reglulega fyrir námskeiðum í skrifstofu- og stjórnunarfræðum sem ætluð eru stjórnendum og starfsmönnum fyrirtækja. Sem dæmi um slík námskeið má nefna námskeið um túlkun kjarasamninga og verkstjóranámskeið. Á báðum þessum námskeiðum er fyrst og fremst fjallað um starfsmannastjórnun og þær reglur sem gilda um samskipti vinnuveitenda og launþega.“

Til svars erindinu skal tekið fram að skv. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt er rekstur skóla og menntastofnana undanþegin virðisaukaskatti. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að með orðalaginu „rekstur skóla og menntastofnana“ sé átt við alla venjulega skóla- og háskólakennslu, faglega menntun, endurmenntun og aðra kennslu- og menntastarfsemi sem hefur unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu. Við mat þess hvenær um fagmenntun er að ræða leggur ríkisskattstjóri áherslu á að kennslan miði að því að auka eða viðhalda þekkingu eingöngu vegna atvinnu þátttakenda.

Þegar námskeið fellur ekki undir ofangreinda skilgreiningu heldur felst t.d. í tómstundafræðslu þátttakenda er starfsemin virðisaukaskattsskyld. Sama gildir um fræðslu og kynningu sem veitt er í tengslum við söluvöru. Hún getur í ýmsum tilvikum talist vera auglýsingar eða ráðgjöf – og þannig virðisaukaskattsskyld starfsemi – til dæmis ef seljandi tækis gerði það að skilyrði fyrir sölu að kaupandi sækti námskeið í notkun tækisins.

Með hliðsjón af framkomnum upplýsingum er það álit ríkisskattstjóra að þau námskeið sem þér gerið grein fyrir í bréfi yðar feli í sér faglega menntun í skilningi laga um virðisaukaskatt. Þar af leiðir að þér innheimtið ekki virðisaukaskatt af námskeiðsgjöldum. Undanþágan tekur ekki til virðisaukaskatts af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.