Dagsetning Tilvísun
21. jan. 1991 216/91
Virðisaukaskattur af ferðaþjónustu.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 10. júlí 1994, þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á ýmsum atriðum er varða virðisaukaskatt af ferðaþjónustu. Sérstaklega er spurt um eftirtalin atriði:
- Hvort skipulag ferða, og sala þjónustu á vegum fyrirtækisins og annarra aðila sé virðisaukaskattsskyld. Fyrir skipulagningu og sölu þjónustu tekur fyrirtækið þóknun.
- Hvernig fara beri með útskatt og innskatt af starfsmannabíl sem jafnframt er notaður til fólksflutninga ferðamanna af og til. Bíllinn tekur sjö manns í sæti, auk bílstjóra.
- Virðisaukaskatt af rekstri snjóbíls sem notaður er til fólksflutninga á jökli.
- Virðisaukaskatt af rekstri vélsleða sem leigðir eru út í hópferðir og til einstaklinga og ekur hver og einn viðskiptavinur sleða.
- Hvort virðisaukaskattur fáist endurgreiddur af byggingu skála á jökli sem ætlað er að hýsa hreinlætisaðstöðu og veitingasölu.
- Hvort virðisaukaskattur fáist endurgreiddur af byggingu aðstöðu fyrir rafstöð og viðgerðaraðstöðu fyrir vélsleða og snjóbíla, og hvort virðisaukaskattur fáist endurgreiddur af rafstöðinni og rekstrarkostnaði, ef hún yrði keypt.
Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:
Um lið 1.
Öll sala í atvinnuskyni á þjónustu, hverju nafni sem nefnist, er virðisaukaskattsskyld, nema starfsemin sé sérstaklega undanþegin skattskyldu samkvæmt lögum. Milliganga um ferðaþjónustu og önnur slík þjónusta ferðaskrifstofa er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 13. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Undanþágan hefur þá þýðingu að fyrirtækið innheimtir ekki virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir þessa þjónustu, en það hefur hins vegar ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum vegna starfseminnar.
Um lið 2.
Fólksflutningar eru undanþegnir virðisaukaskatti, sbr. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Þar af leiðir að ekki fæst endurgreiddur sem innskattur sá virðisaukaskattur sem fyrirtækið greiðir vegna kaupa aðfanga til starfseminnar. Því til viðbótar skal tekið fram að virðisaukaskattur vegna öflunar, reksturs og leigu fólksbifreiða fyrir níu menn eða færri, þ.m.t. skutbifreiða (station) og jeppabifreiða, fæst ekki endurgreiddur sem innskattur, einnig þótt bifreiðar þessar séu eingöngu notaðar vegna skattskyldrar starfsemi, nema aðili hafi með höndum sölu eða leigu þessara bifreiða, sbr. 6. tölulið 3. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt.
Um lið 3.
Vísað er til svars við lið nr. 2. Snjóbíll er bifreið í skilningi umferðarlaga og fer því um virðisaukaskatt vegna þeirra eftir sömu reglum og um bifreiðir almennt.
Um lið 4.
Útleiga lausafjár í atvinnuskyni er virðisaukaskattsskyld starfsemi, þ.m.t. vélsleðaleiga.
Um liði 5 og 6.
Telja má virðisaukaskatt af aðföngum að fullu til innskatts ef aðföng varða eingöngu virðisaukaskattsskylda starfsemi en ekki má telja skatt af aðföngum að neinu leyti til innskatts ef aðföngin varða eingöngu starfsemi sem undanþegin er skattskyldu, t.d. gistiþjónustu og fólksflutninga. Varði aðföng hvort tveggja verður að skipta virðisaukaskatti í innskatt og ófrádráttarbæran skatt, sbr. nánar reglur sem raktar eru á bls. 33 og áfram í leiðbeiningariti ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt (RSK 11.15).
Í þessu sambandi skal tekið fram að aðila sem stundar undanþegna starfsemi, t.d. fólksflutninga, ber að greiða virðisaukaskatt af eigin viðgerðarþjónustu o.fl., sbr. reglugerð nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana. Um innskatt af skattskyldri eigin starfsemi slíkra aðila eru reglur mismunandi eftir því hvort hin skattskylda starfsemi fer fram í sérstakri þjónustudeild, sem miðar skattverð (stofn til virðisaukaskatts) við almennt gangverð, eða hvort skattskyld þjónusta er innt af hendi utan þjónustudeildar og skattverð einungis miðað við vinnulaun og annan kostnað sem ekki hefur þegar verið greiddur virðisaukaskattur af. Í fyrra tilvikinu er heimilt að draga innskatt af aðföngum frá útskatti samkvæmt almennum reglum virðisaukaskattslaga, en í síðari tilvikinu er ekki um að ræða innskattsfrádrátt. Vísast nánar um þessar reglur til reglugerðar nr. 562/1989.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.