Dagsetning                       Tilvísun
21. jan. 1991                             217/91

 

Virðisaukaskattur af kennslustarfsemi.

Vísað er til bréfs yðar, sem barst embættinu 9. janúar 1990, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts vegna kennslu í skólum og fyrirtækjum í öryggi og aðbúnaðarmálum á vinnustöðum, vinnuvistfræði og fyrstu hjálp. Í bréfinu er jafnframt sagt að um sé að ræða hefðbundna kennslu við marga skóla og eru nokkrir þeirra tilgreindir.

Að áliti ríkisskattstjóra er sú starfsemi, sem lýst er í bréfi yðar, undanþegin virðisaukaskatti skv. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, en með hliðsjón af greinargerð með frumvarpi til virðisaukaskattslaga túlkar ríkisskattstjóri það ákvæði þannig að það nái til kennslu í námsgreinum sem unnið hafa sér fastan og varanlegan sess í hinu almenna skólakerfi, svo og til faglegrar menntunar og endurmenntunar í sambandi við atvinnu manna. Við mat þess hvenær um fagmenntun er að ræða leggur ríkisskattstjóri áherslu á að kennslan miði að því að auka eða viðhalda þekkingu eingöngu vegna atvinnu þátttakenda.

Undanþáguákvæðið tekur bæði til námskeiðshaldara og einstakra fyrirlesara sem starfa sem „verktakar“ við kennslu. Þar af leiðir að yður ber hvorki að innheimta virðisaukaskatt af námskeiðsgjöldum né af þeirri þóknun sem þér fáið fyrir kennslu eða námskeiðahald.

Undanþágan tekur ekki til virðisaukaskatts af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.