Dagsetning                       Tilvísun
6. sept. 1991                             218/91

 

Virðisaukaskattsnúmer.

Með bréfi yðar, dags. 8. janúar sl. , er gerð grein fyrir því að einstaklingsfyrirtæki nokkru hafi verið breytt í hlutafélag og þá fengið sömu kennitölu og einstaklingsfyrirtækið hafði áður. Hins vegar fékk hlutafélagið ekki sama virðisaukaskattsnúmer og áður hafði verið notað í rekstrinum, enda var það númer skráð á eiganda einstaklingsfyrirtækisins.

Í bréfinu er þess óskað að hlutafélagið geti fengið sama virðisaukaskattsnúmer og einstaklingsfyrirtækið hafði, en rekstri þess var hætt um áramótin 1989/1990 og öll virðisaukaskattsskyld starfsemi hefur síðan farið fram í nafni hlutafélagsins.

Ekki er unnt að verða við beiðni yðar, enda er virðisaukaskattsnúmer tengt viðkomandi aðila um nokkurn tíma eftir að starfsemi er hætt, m.a. vegna ákvæða 2. mgr. 17. gr., 3. mgr. 26. gr. og 9. mgr. 27. gr. laga um virðisaukaskatt.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson