Dagsetning                       Tilvísun
21. jan. 1991                             219/91

 

Virðisaukaskattur – námskeið í skyndihjálp o.fl.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 9. janúar 1990, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af námskeiðum í skyndihjálp.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

Um þátttökugjöld á námskeiðum á vegum R.

Rekstur skóla og menntastofnana er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga kemur fram að með orðalaginu „rekstur skóla og menntastofnana “ sé átt við alla venjulega skóla- og háskólakennslu, faglega menntun, endurmenntun og aðra kennslu- og menntastarfsemi. Jafnframt kemur fram að við mat á því hvort nám teljist skattfrjálst sé eðlilegt að hafa hliðsjón af því hvort boðið er upp á það í hinu almenna skólakerfi eða ekki. Hafi námsgreinin unnið sér fastan sess í hinu almenna skólakerfi ber að líta svo á að skóla- eða námskeiðsgjöld séu skattfrjáls.

Með vísan til framanritaðs og þess að í aðalnámsskrá grunnskóla kemur fram að kenna beri skyndihjálp í grunnskólum er það álit ríkisskattstjóra að slík námskeið séu undanþegin virðisaukaskatti. Undanþágan tekur ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til hinnar undanþegnu stafsemi.

Um önnur námskeið en í skyndihjálp fer um meðferð virðisaukaskatts eftir sömu sjónarmiðum og rakin eru að framan. Höfð er hliðsjón af því hvort námsgreinin hafi unnið sér fastan sess í hinu almenna skólakerfi eða ekki.

Um sölu kennslubóka og vinnubóka í skyndihjálp

Sala bóka á íslenskri tungu, jafnt frumsaminna sem þýddra, telst ekki til skattskyldrar veltu, sbr. 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt. Ákvæðið tók gildi l. september 1990 og bar að innheimta virðisaukaskatt af sölu bóka fram að þeim tíma. Undanþágan tekur ekki til bóka á erlendum málum.

Um önnur atriði vegna virðisaukaskatts af sölu bóka vísast til bréfs ríkisskattstjóra, dags. 24. ágúst 1990, sem fylgir hjálagt.

Um starfsemi leiðbeinanda í skyndihjálp sem starfa sem verktakar.

Vinna leiðbeinenda á námskeiðum sem falla undir undanþáguákvæði 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt er undanþegin með sama hætti og námskeiðsgjöld.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.