Dagsetning                       Tilvísun
28. jan. 1991                            220/91

 

Virðisaukaskattur af rekstri loranstöðva.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 16. júlí sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts vegna reksturs loranstöðva hér á landi.

Fram kemur í fyrirliggjandi gögnum að póst- og símamálastofnunin tók að sér með samningi við bandarísku strandgæsluna, samþykktum 26. ágúst 1961, að annast rekstur ákveðinna loranstöðva í eigu Bandaríkjana og NATO.

Samkvæmt 48. gr. laga um virðisaukaskatt telst sala á skattskyldri vöru og þjónustu til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sbr. lög nr. 110/1951, um lagagildi varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna, sala úr landi í skilningi laga um virðisaukaskatt. Að áliti ríkisskattstjóra tekur ákvæðið til starfsemi nefndra loranstöðva.

Með vísan til framangreinds er póst- og símamálastofnuninni rétt að telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem stofnast vegna kaupa fyrir rekstur loranstöðvanna og jafnframt að selja þjónustu sína vegna reksturs stöðvanna án innheimtu virðisaukaskatts. Rétt er að póst- og símamálastofnunin sæki um sérstakt virðisaukaskattsnúmer til skattstjóra, vegna þessarar starfsemi, enda mun hún vera aðgreind sérstaklega í bókhaldi stofnunarinnar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.