Dagsetning Tilvísun
28. jan. 1991 221/91
Virðisaukaskattur vegna reksturs ratsjárstöðva.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 27. febrúar 1990, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts vegna starfsemi stofnunarinnar. Í bréfi yðar og gögnum sem ríkisskattstjóra hafa síðan borist kemur fram að stofnunin annast gegn greiðslu frá bandaríska sjóhernum rekstur og viðhald ratsjárstöðva sem eru hér á landi í eigu bandarískra stjórnvalda.
Samkvæmt 48. gr. laga um virðisaukaskatt telst sala á skattskyldri vöru og þjónustu til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sbr. lög nr. 110/1951, um lagagildi varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna, sala úr landi í skilningi laga um virðisaukaskatt. Nefndar ratsjárstöðvar munu vera þáttur í starfsemi varnarliðsins.
Með vísan til framangreinds er Ratsjárstofnun rétt að telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem stofnast vegna kaupa rekstrar- og fjárfestingarvara vegna ratsjárstöðvanna og jafnframt að selja þjónustu sína vegna reksturs stöðvanna án innheimtu virðisaukaskatts.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.